Fótbolti

Þessir leikir tóku á andlega

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Sandra María Jessen er fyrirliði Þórs/KA liðsins.
Sandra María Jessen er fyrirliði Þórs/KA liðsins. vísir/eyþór

Þór/KA komst í 32-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu í gær eftir markalaust jafntefli gegn Ajax í lokaleik Akureyringa í undankeppninni. Er þetta í annað sinn í sögu félagsins sem norðankonur komast í útsláttarkeppnina. Fóru þær upp úr riðli sínum með sjö stig úr þremur leikjum þrátt fyrir að lenda í öðru sæti sem eitt af tveimur stigahæstu liðunum í öðru sæti.

Örlögin voru í höndum norðankvenna fyrir leikinn sem voru öruggar áfram með sigri en líklegt var að jafntefli myndi duga. Andstæðingurinn, Ajax frá Hollandi var að sögn Söndru Maríu Jessen, fyrirliða Þórs/KA, gríðarlega sterkur og innihélt fjölmargar landsliðskonur.

„Ajax er með gífurlega sterkt lið, margar landsliðskonur frá Hollandi og eina frá Danmörku. Við getum verið stoltar af þessum úrslitum og að hafa haldið hreinu allan riðilinn og við komum fullar sjálfstrausts aftur í Pepsi-deildina,“ sagði Sandra og bætti við:

„Þessir leikir tóku á andlegu hliðina, það voru margar sem höfðu ekki leikið Evrópuleiki og við þurftum að vera agaðar og reiða okkur á að liðsandinn myndi nýtast okkur. Við gerðum vel að stíga upp og það var ekki að sjá að þetta væru fyrstu leikirnir hjá mörgum í Meistaradeildinni.“

Akureyringar urðu fyrir áfalli þegar þær misstu Ariana Cald­eron af velli á 78. mínútu með rautt spjald.

„Þetta var varla brot að mínu mati, hún rekst í hana og fær dæmda á sig aukaspyrnu en dómarinn var búinn að vara hana við að hún væri á síðasta séns. Þrátt fyrir að vera manni færri á lokakaflanum héldum við áfram að sækja í leit að sigurmarkinu,“ sagði Sandra og hélt áfram:

„Það var svakaleg spenna undir lokin, ég var með hnút í maganum síðustu mínúturnar en stuðningsmenn Þórs/KA í stúkunni voru duglegir að láta okkur vita. Við ætluðum að klára þetta með sigri í dag en jafnteflið dugði til og þá var gott að fá þessar upplýsingar úr stúkunni.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.