Enski boltinn

De Bruyne missir af báðum leikjunum á móti Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne.
Kevin De Bruyne. Vísir/Getty
Manchester City maðurinn Kevin De Bruyne verður frá keppni næstu þrjá mánuðina en alvarleiki hnémeiðsla hans er nú kunnur.

De Bruyne sleppur við aðgerð en hann meiddist á liðbandi í hægra hné á æfingu City liðsins á miðvikudaginn.

Kevin De Bruyne kom inn af bekknum í fyrsta deildarleiki Manchester City á tímabilinu en Riyad Mahrez, Bernardo Silva og Raheem Sterling spiluðu fyrir aftan Sergio Aguero í 2-0 sigri á Arsenal.





De Bruyne fékk meiri hvíld en margir leikmenn City af því að hann fór langt með belgíska landsliðinu á HM í sumar. Hann var aðeins búinn að vera hjá City í rúma viku eftir sumarfrí þegar hann meiddist.

Missirinn er samt mjög mikill enda var Kevin De Bruyne kosinn besti leikmaður Manchester City á síðustu leiktíð.

De Bruyne meiddist líka á hné 2015-16 tímabilið og var þá frá í tvo mánuði.





De Bruyne missir ekki aðeins af leikjum Manchester City heldur verður hann ekki með belgíska landsliðinu í Þjóðadeildinni. Þar mæta Belgar Íslendingum og Svisslendingum.

Leikirnir á móti Íslandi eru  11. september á Laugardalsvellinum og 15. nóvember í Brussel. De Bruyne missir því af báðum leikjunum á móti Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×