Erlent

Segir Norður-Kóreu eiga langt í land

Samúel Karl Ólason skrifar
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Vísir/AP
Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að Norður-Kórea sé ekki að standa við fyrirheit sín varðandi afvopnun og að einræðisríkið sé enn í trássi við ýmsar ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. Enn sé langt í land þar til hægt verði að standa við samkomulag Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, og Kim Jong-Un, einræðisherra Norður-Kóreu, frá Singapúr.

Pompeo hefur leitt viðræður við Norður-Kóreu og hefur hann þrisvar sinnum ferðast til Pyongyang frá því í apríl. Hann mun sitja fund ráðherra í Suðaustur-Asíu í Singapúr nú um helgina og er utanríkisráðherra Norður-Kóreu þar einnig. Samkvæmt AP fréttaveitunni liggur ekki fyrir hvort þeir muni funda sérstaklega.Þar sem hann ræddi við blaðamenn í Singapúr sagði Pompeo að Kim hefði skuldbundið sig til að losa sig við kjarnorkuvopn sín og að heimurinn hefði sömuleiðis krafist þess. Enn sem komið er væri ríkisstjórn Norður-Kóreu ekki að haga sér þannig.

Ríkisstjórn Kim virðist þó ekki vera á því að hann hafi samþykkt að láta vopn sín af hendi. Í síðasta mánuði sakaði Norður-Kórea Bandaríkin um ribbaldaskap í kröfum sínum. Það gerðu þeir eftir að Pompeo yfirgaf Norður-Kóreu og sögðu forsvarsmenn einræðisríkisins að kröfur Pompeo hefðu ekki verið í anda fundarins í Singapúr. Ríkismiðill Norður-Kóreu gagnrýnd Pompeo harðlega fyrir að krefjast þess að ríkið losaði sig alfarið við kjarnorkuvopn.

Donald Trump, fagnaði því í gær að hann hefði fengið nýtt bréf frá Kim. Það barst í kjölfar þess að leyniþjónusta Bandaríkjanna taldi sig hafa vísbendingar um að ríkisstjórn Kim vinni að smíði nýrra eldflauga. Það sé gert í sömu verksmiðju og framleiddi fyrstu langdrægu eldflaug ríkisins sem gæti verið skotið að meginlandi Bandaríkjanna. Áður hefur komið í ljós að Bandaríkin telji Norður-Kóreumenn halda áfram að auðga úran fyrir kjarnorkuvopn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.