Íslenski boltinn

Óskar Örn: Blóðugt að löglegt mark sé tekið af okkur

Magnús Ellert Bjarnason frá Kópavogsvelli skrifar
Óskar var ósáttur í leikslok.
Óskar var ósáttur í leikslok. vísir/bára
Óskar Örn Hauksson var skiljanlega niðurlútur í leikslok þegar að blaðamaður Vísis náði tali af honum. Lið hans, KR, varð að mikilvægum stigum í baráttunni um Evrópusæti þegar að það laut í lægra hald gegn Breiðablik fyrr í kvöld á Kópavogsvelli, 1-0.

 

Óskar var spurður hvað hefði helst vantað í leik KR í kvöld.

 

„Ég veit ekki hvort það sé hægt að segja að það hafi eitthvað sérstakt vantað í leik okkar. Þetta var jafn og lokaður leikur þar sem bæði lið vörðust vel. Við sköpuðum ekki mikið en það gerðu Blikar ekki heldur. Þeim tókst hins vegar að skora þetta eina mark sem skilur liðin að og það er gríðarlega svekkjandi.”

 

Öllum að óvörum skaut Óskar Örn frá miðju vallarins á 8. mínútu leiksins. Í fyrstu leit út fyrir að Gunnleifur Gunnleifsson, markmaður Blika, myndi grípa boltann auðveldllega, enda var hann vel staðsettur og skot Óskars beint beint á hann.

Svo varð ekki raunin, en Gulli missti boltann klaufalega frá sér, að því er virtist inn fyrir marklínuna. Dómaratríó leiksins var hins vegar ekki á því máli að boltinn hefði farið inn fyrir línuna, við mikil mótmæli leikmanna KR.

 

Hvernig horfði þetta við Óskari, var þetta mark?

 

„Mér skilst að boltinn hafi verið inni og það er blóðugt að hugsa til þess að löglegt mark sé tekið af okkur. Við hefðum fengið allavega eitt stig ef dómarinn hefði dæmt rétt þar og mögulega þrjú. Þetta er eitthvað sem sérfræðingarnir í Pepsi-mörkunum verða að skoða vel með marklínutækninni þeirra.”

 

Leikmönnum KR gekk illa að skapa sér færi í kvöld og var sóknarleikur þeirra lengstum hægur og fyrirsjáanlegur. Hvað fannst Óskari um sóknarleik KR?

 

„Blikarnir eru með frábærtt varnarlið og verjast á fimm góðum mönnum. Við vorum búnir að fara vel yfir þetta og því átti þetta ekkert að koma okkur á óvart. Við vorum sennilega of óþólinmóðir og alltof gjarnir á að leita af fyrsta opna manninum í staðinn fyrir að vera þolinmóðir og taka okkar tíma í að opna vörnina þeirra.”

 

Þrátt fyrir tapið er Óskar bjartsýnn fyrir komandi leiki. Aðspurður hvort að Evrópusæti væri ennþá raunæfur möguleiki, svaraði Óskar því án umhugsunar.

 

„Já, að sjálfsögðu. Það er ennþá nóg eftir af þessu móti.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×