Erlent

Stærsti skógareldur Kaliforníu mun loga út mánuðinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Slökkviliðsmenn sem fjölmiðlar ytra hafa rætt við segjast aðframkomnir eftir langa baráttu.
Slökkviliðsmenn sem fjölmiðlar ytra hafa rætt við segjast aðframkomnir eftir langa baráttu. Vísir/AP
Stærsti skógareldur í sögu Kaliforníu mun loga út mánuðinn, að minnsta kosti. Slökkviliðsmenn berjast nú við átján elda í ríkinu þar sem mikill hiti, sterkur vindur og þurrkar hafa gert slökkvistörf mjög erfið.

Vitað er að einn af stærri eldunum kviknaði þegar dekk á bíl hvellsprakk. Þegar felga bílsins lenti á malbikinu skutust neistar út frá henni og kviknaði eldur. Rúmum tveimur vikum seinna hefur sá eldur brennt um 150 þúsund ekrur, rúm 1.500 heimili og hafa sjö dáið vegna hans.



Stærsti eldurinn, sem logar í norðurhluta ríkisins, varð sá stærsti í sögu Kaliforníu á mánudaginn. Embættismenn höfðu áætlað að slökkva hann í miðjum ágúst en sögðu í dag (þriðjudag) að það yrði ekki hægt fyrr en í byrjun september.

Áætlað er að slökkviliðsmenn hafi einungis náð tökum á tæpum þriðjungi eldsins.

Minnst fjórtán þúsund slökkviliðsmenn berjast við eldana og njóta þeir aðstoðar hermanna og slökkviliðsmanna frá Ástralíu og Nýja Sjálandi. Þar að auki hafa um þúsund fangar einnig barist gegn eldunum.

Slökkviliðsmenn sem fjölmiðlar ytra hafa rætt við segjast aðframkomnir eftir langa baráttu. Þeir segja ástandið hafa versnað á undanförnum árum og skógareldum fjölgað verulega. Tveir af fimm stærstu skógareldum í sögu Kaliforníu hafa kviknað á þessu ári.

Hér að neðan má sjá tvö tíst með myndum sem geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni tóku á dögunum.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×