Erlent

ISIS-liðar rændu tugum kvenna og barna

Samúel Karl Ólason skrifar
Minnst 250 féllu í sprengju- og skotárásum í héraðinu á miðvikudaginn og voru flestir þeirra almennir borgarar.
Minnst 250 féllu í sprengju- og skotárásum í héraðinu á miðvikudaginn og voru flestir þeirra almennir borgarar. Vísir/AP

Vígamenn Íslamska ríkisins rændu tugum kvenna og barna sem tilheyra Druze-minnihlutahópnum í Sýrlandi. Það gerðu þeir í síðustu viku þegar þeir réðust á þorp þeirra nærri borginni Sweida í mannskæðustu árásum ISIS frá upphafi átakanna í Sýrlandi.

Minnst 250 féllu í sprengju- og skotárásum í héraðinu á miðvikudaginn og voru flestir þeirra almennir borgarar.

AFP fréttaveitan segir fregnir nú hafa borist af því að 36 konum og börnum hafi verið rænt úr einu þorpanna. Fjórum konum hafi síðan þá tekist að flýja og tvær séu dánar. Enn séu þó fjórtán konur og sextán börn í haldi vígamannanna.

ISIS-liðar eru sagðir hafa birt myndband af einni konunni þar sem hún er að leggja fram kröfur ISIS til ríkisstjórnar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Þeir hafa krafist þess að skipta á föngum við ríkisstjórnina og að Assad-liðar hætti sókn sinni gegn ISIS í suðurhluta Sýrlands.

Þorpið sem um ræðir heitir Al-Shabki og tilheyra flestir fanganna tveimur stórum fjölskyldum. Blaðamaður héraðsmiðils sem AFP ræddi við segir íbúa þorpsins vera bændur og þeir hafi ekki átt nein vopn. Því hafi mótspyrna verið lítil sem engin og þegar vígamenn ISIS tóku eftir því rændu þeir fólkinu.

Íslamska ríkið hefur tapað nánast öllu sínu landsvæði í Sýrlandi og öllu yfirráðasvæði í Írak.
 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.