Innlent

Vopnaðir lögreglumenn sendir á Svalbarðseyri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vopnaðir lögreglumenn frá Akureyri voru sendir á vettvang.
Vopnaðir lögreglumenn frá Akureyri voru sendir á vettvang. Vísir/Auðunn
Lögreglan á Norðurlandi eystra handtók í nótt mann sem sést hafði vopnaður á almannafæri á Svalbarðseyri. Vopnaðir lögreglumenn voru sendir frá Akureyri til að kanna málið en fundu ekkert í fyrstu. „Eftir nokkra rannsóknarvinnu bárust böndin að húsi í þorpinu og reyndist maðurinn, sem tilkynntur var um, vera þar,“ segir í skeyti lögreglunnar.

Maðurinn á að hafa verið í annarlegu ástandi og fannst vopnið í fórum hans. Hann er ekki sagður hafa veitt neina mótspyrnu þegar lögreglumennirnir handtóku manninn og færðu í fangageymslu. Nú er þess beðið að ástand mannsins lagist svo að taka megi skýrslu af honum.

Ekki er vitað á þessari stundu hvað manninum gekk til og ekki er talið að fleiri tengist málinu með beinum hætti. Rannsókn málsins er sögð á frumstigi og vill lögreglan ekki veita frekari upplýsingar að svo komnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×