Fótbolti

Neymar: Ronaldo á eftir að breyta ítalska boltanum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Cristiano Ronaldo flaug til Kína eftir að hann var kynntur til leiks hjá Juventus.
Cristiano Ronaldo flaug til Kína eftir að hann var kynntur til leiks hjá Juventus. vísir/getty
Brasilíumaðurinn Neymar telur að Cristiano Ronaldo eigi eftir að breyta landslaginu í ítalska boltanum eftir að hann var keyptur til Juventus frá Real Madrid fyrir 105 milljónir punda.

Ronaldo er orðinn 33 ára gamall en virðist hvergi slá slöku við. Hann vann Meistaradeildina í fjórða sinn með Real Madrid í vor og var kjörinn besti fótboltamaður heims í fimmta sinn í byrjun árs.

Ítalska deildin var sú besta framan af á tíunda áratug síðustu aldar en varð aðeins eftir á upp úr aldamótum. Hún er á réttri leið og Neymar telur hana vera í góðum málum með portúgalska snillinginn innanborðs.

„Ronaldo á eftir að breyta ítalska boltanum. Deildin verður aftur eins og þegar ég var að horfa sem barn því Cristiano Ronaldo er frábær leikmaður. Hann er goðsögn í fótboltaheiminum. Algjör snillingur,“ sagði Neymar.

Neymar fór um víðan völl er hann svaraði spurningum blaðamanna á góðgerðarkvöldi sem hann hélt í gær en margar spurningarnar voru um Ronaldo sem yfirgaf Real Madrid eftir farsæla níu ára dvöl í spænsku höfuðborginni.

„Ég er svo ánægður fyrir hans hönd með þessa ákvörðun. Þetta hefur verið erfið ákvörðun en ég óska honum alls hins besta, bara ekki á móti PSG,“ sagði Neymar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×