Erlent

Tælensku drengirnir fá hugarró í hofi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hluti hópsins er sagður hafa tekið þátt í sambærilegri athöfn áður.
Hluti hópsins er sagður hafa tekið þátt í sambærilegri athöfn áður. Vísir/AFP

Bróðurpartur tælenska fótboltaliðsins, sem festist í helli rúmar tvær vikur, hóf í dag trúarathöfn sem standa mun yfir næstu daga. Drengirnir munu raka af sér allt hárið og klæðast þartilgerðum kuflum, en að sögn breska ríkisútvarpsins er athöfnin sögð vera algengur siður hjá tælenskum körlum sem lent hafa í áföllum.

Hópurinn mun verja alls níu dögum í búddistahofi en einn þeirra, Adul Sam-on, er kristinn og mun því ekki taka þátt í athöfninni. Fótboltaþjálfarinn þeirra mun að sama skapi dvelja með þeim í hofinu, ekki þó sem lærlingur eins og drengirnir heldur sem fullgildur munkur.

Strákarnir voru útskrifaðir af sjúkrahúsi í liðinni viku og eru sagðir við góða heilsu. Athöfninni er ætlað að veita þeim „andlega hreinsun“ eftir þrekraunina.

„Þeir ættu að verja smá tíma í hofi, það er þeim fyrir bestu,“ er haft eftir afa eins stráksins í hópnum á vef BBC. „Það er eins og þeir hafi dáið en hafi nú endurfæðst.“

Tælensk stjórnvöld segja að hár drengjanna verði rakað af í dag og á morgun muni þeir fá í hendurnar kuflana sína. Þeir munu flakka á milli nokkurra hofa þar sem þeir munu verja deginum við hugleiðslu, bænakall og þrif.

Þeir halda aftur til síns heima þann 4. ágúst, eftir níu daga - en níu er talin happatala í Tælandi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.