Erlent

Hundruð innflytjenda mögulega vísað á brott án barna sinna

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðskilnaður fjölskyldna er mjög umdeildur í Bandaríkjunum.
Aðskilnaður fjölskyldna er mjög umdeildur í Bandaríkjunum. Vísir/Getty
Útlit er fyrir að 463 ólöglegir innflytjendur hafi verið sendir frá Bandaríkjunum án barna sinna, sem tekin voru af þeim við komuna þangað. Ríkisstjórn Donald Trump segir fólkið hafa skilið börn sín vísvitandi eftir í Bandaríkjunum en lögmenn og aðrir sem aðstoða innflytjendur segja þau ekki hafa vitað hvað þau hafi samþykkt. Þau hafi verið þvinguð til að skrifa undir þar til gert plagg eftir að börn þeirra hafi verið tekin af þeim.

Dómari hefur gefið ríkisstjórninni frest til fimmtudags til að sameina eins margar fjölskyldur og mögulegt er. Fram kom í dómskjölum í gær að 463 foreldrar hafi verið fluttir úr landi, en sú tala er þó til skoðunar. Það samsvarar þó um fimmtungi af þeim fjölskyldum sem yfirvöld Bandaríkjanna hafa slitið í sundur.

„Við höfum áhyggjur af því að þessi foreldrar fái rangar upplýsingar um rétt þeirra til að berjast gegn brottvísun án barna þeirra,“ segir Stephen Kang, einn af lögmönnum foreldra. „Sé þessi tala eins há og gefur til kynna, verður það stærðarinnar mál fyrir okkur.“



Samkvæmt áðurnefndum skjölum er búið að sameina 879 fjölskyldur. Búið er að samþykkja 538 sameiningar til viðbótar.

Hins vegar er búið að ákveða að sameina ekki 194 fjölskyldur, 463 foreldrar eru ekki lengur í Bandaríkjunum og 260 eru til sérstakrar skoðunar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×