Erlent

Evrópuþjóðir bjóðast til að aðstoða Grikki við slökkvistarfið

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Eldarnir eru gríðarlegir umfangs og er eyðileggingin mikil.
Eldarnir eru gríðarlegir umfangs og er eyðileggingin mikil. Vísir/Getty
Að minnsta kosti sjötíu og fjórir hafa farist í skógareldum á Attíkuskaga nærri grísku höfuðborginni Aþenu. Þetta eru langmannskæðustu skógareldar þar í landi frá því 84 hið minnsta létu lífið í eldum á eyjunni Euboea og Attíku- og Pelópsskaga árið 2007.

Sett hefur verið upp neyðarlína, 199, svo Grikkir geti tilkynnt um að einhvers sé saknað og er óttast um að tala látinna hækki enn. Þriggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur boðist til að senda Þjóðverja til Grikklands til að aðstoða við slökkvistarf. „Á þessum erfiðu tímum stendur Þýskaland með grískum vinum sínum. Þið getið verið viss um að við erum viljug til þess að rétta ykkur hjálparhönd,“ var haft eftir kanslaranum á enskumælandi vef gríska blaðsins Kathimerini.

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, vottaði Grikkjum samúð sína á Twitter og tilkynnti að Ítalir gætu sent tvær flugvélar, sérútbúnar til slökkvistarfs, til Grikklands. Slíkar vélar hafa einnig verið sendar til Svíþjóðar þar sem tugir elda hafa logað að undanförnu.

Grískir miðlar hafa flutt fjölda frétta af harmleiknum. Í viðtali við Skai TV sagði Nikos Economopoulos, framkvæmdastjóri gríska Rauða krossins, frá því að sveitir Rauða krossins hafi fundið hóp 26 fórnarlamba hamfaranna, börn þar á meðal, liggja í faðmlögum uppi á kletti.

„Þau reyndu að finna leið út úr eldhafinu en því miður komst þetta fólk og þessi börn ekki út í tæka tíð. Þegar endirinn nálgaðist féllst fólkið í faðma.“ Landhelgisgæslan og áhafnir annarra báta hafa bjargað nærri 700 sem höfðu komið sér niður á strönd og náð nítján lifandi og fjórum látnum úr hafinu


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×