Erlent

Flúðu út í sjó og horfðu á vini sína drukkna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vinahópurinn hljóp undan eldinum og enduðu þau niður á strönd. Þaðan fóru þau út í sjóinn og syndu eins langt frá landi og þau þorðu til að forðast hitann og koltvísýringinn.
Vinahópurinn hljóp undan eldinum og enduðu þau niður á strönd. Þaðan fóru þau út í sjóinn og syndu eins langt frá landi og þau þorðu til að forðast hitann og koltvísýringinn. Vísir/AP
Tala látinna í skógareldunum í Grikklandi er nú komin í 74 en búist er við að hún muni verða hærri. Meðal hinna látnu móðir og sonur sem drukknuðu undan ströndum bæjarins Rafina. Þau voru á sumarheimili vina þegar eldurinn nálgaðist þau á ógnarhraða. Vinahópurinn hljóp undan eldinum og enduðu þau niður á strönd. Þaðan fóru þau út í sjóinn og syndu eins langt frá landi og þau þorðu til að forðast hitann og koltvísýringinn.

Vindurinn sem leiddi til hraðrar dreifingar eldsins hafði einnig þau áhrif að mikill öldugangur var út á hafi og innan skamms sáu þau ekki lengur til strandar. Eftir að hafa haldið sér á floti í tvær klukkustundir komu sjómenn frá Egyptalandi þeim til bjargar. Fjórum af sex var bjargað.

„Það er hræðilegt að sjá manneskjuna við hliðina á þér drukkna og þú getur ekki hjálpað henni. Þú getur það ekki,“ hefur AP eftir Nikos Stavrinidis. Hann var einn þeirra sem bjargaðist.

„Þetta mun ávalt fylgja mér.“

Sjá einnig: 26 menn, konur og börn fundust látin í faðmlögum

Stavrinidis segir þetta hafa gerst mjög hratt. Eldurinn hafi verið langt í burtu en hafi umkringt þau einstaklega hratt.

„Vindurinn var ólýsanlegur, þetta var ótrúlegt. Ég hef ekki séð neitt þessu svipað á ævi minni.“

Stavrinidis segir egypsku sjómennina hafa stokkið í sjóinn og dregið þau um borð. Þá hafi þeir haldið á þeim hita á leiðinni í landi.

„Þeir voru frábærir,“ segir Stavrinidis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×