Innlent

Lögregla þakkar fyrir „stórkostlega sýningu“ Guns N‘ Roses

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hópur lögreglumanna fyrir framan sviðið á Laugardalsvelli í gærkvöldi.
Hópur lögreglumanna fyrir framan sviðið á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Mynd/lögreglan á höfuðborgarsvæðinu
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu birti í dag svipmyndir af eftirliti lögreglu á tónleikum Guns N‘ Roses í gær. Segir lögregla að gæslan á Laugardalsvelli hafi gengið afar vel og þakkar sveitinni fyrir „stórkostlega sýningu.“

Í Facebook-færslu lögreglu segir jafnframt að áhorfendur hafi verið í góðum gír og veðrið með besta móti – miðað við það sem á undan hefur gengið á höfuðborgarsvæðinu. Þá hafi merkilega fáir hlotið sekt fyrir stöðubrot en tónleikahaldarar lögðu mikla áherslu á að fólk nýtti sér almenningssamgöngur á leið til og frá tónleikasvæðinu.

„Samstarf tónleikahaldara, gæslu, lögreglu og sjúkraliðs var með besta móti og sjaldan sem að þurfti inngrip. Það átti við bæði innan og utan tónleikanna því lagningar voru til fyrirmyndar og aðeins voru gefnar út fjórar sektir fyrir stöðubrot, sem er til frásagnar miðað við þennan fjölda.“

Gærkvöldið gekk þó ekki alveg áfallalaust fyrir sig en Vísir greindi frá því í gærkvöldi að einn hefði verið handtekinn á tónleikunum vegna líkamsárásar og var þolandinn fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Þá kom fram í dagbók lögreglu fyrir gærkvöldið að fjórum hefði verið vísað út af tónleikasvæðinu vegna ölvunar.


Tengdar fréttir

„Sjáumst aftur fyrr en síðar“

Liðsmenn rokksveitarinnar Guns N' Roses virðast vera hæstánægðir með tónleika sem sveitin hélt í Laugardal í gærkvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×