Erlent

Nota Fitbit-gögn við leit að tvítugri konu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mollie Tibbets er tvítug að aldri. Hún sást seinast fyrir níu dögum síðan í heimabæ sínum Brooklyn í Iowa.
Mollie Tibbets er tvítug að aldri. Hún sást seinast fyrir níu dögum síðan í heimabæ sínum Brooklyn í Iowa. lögreglan í iowa
Yfirvöld í Iowa skoða nú gögn frá Fitbit og af samfélagsmiðlum vegna rannsóknar á mannshvarfi hinnar 20 ára gömlu Mollie Tibbets.

Tibbets sást síðast þann 18. júlí nálægt heimabæ sínum Brooklyn í Iowa en þá var hún úti að hlaupa.

Vinir hennar segja að hún hafi verið mikill hlaupari og hafi alltaf verið með Fitbit-úrið á sér til að skrá niður æfingarnar.

Vonast rannsakendur til að gögnin úr úrinu komi að notum við rannsóknina á hvarfi Tibbets. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, tekur nú þátt í rannsókninni og fer í gegnum rafræn gögn Tibbets af Snapchat, Instagram, Facebook og Fitbit.

Tibbets hvarf þegar hún var að passa hund heima hjá kærastanum sínum og bróður hans í Brooklyn, litlum bæ um 112 kílómetra austur af Des Moines. Nágrannar sáu hana síðast úti að hlaupa, íklædda stuttbuxum, hlaupaskóm og svörtum íþróttatopp.

Lögreglan hefur útilokað að kærastinn og bróðir hans hafi átt einhvern þátt í hvarfi Tibbets þar sem þeir voru í burtu vegna vinnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×