Innlent

Stórt vændis- og mansalsmál enn til rannsóknar

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Annar grunaðra leiddur fyrir dómara í nóvember.
Annar grunaðra leiddur fyrir dómara í nóvember. Fréttablaðið/Anton Brink
Mál pars sem sætti tveggja vikna gæsluvarðhaldi skömmu fyrir jól vegna gruns um mansal og umfangsmikla vændisstarfsemi er enn í rannsókn hjá lögreglu. Framkvæmdar voru þrjár húsleitir vegna málsins í nóvember og þremur konum í kjölfarið komið fyrir í Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.

Þrátt fyrir að sakarefnin sem til rannsóknar eru teljist alvarleg var hvorki farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald né farbann þegar gæsluvarðhaldsúrskurður yfir hinum grunuðu rann úr gildi 6. desember síðastliðinn.

Margeir Sveinsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir að þau sem sættu gæsluvarðhaldi vegna málsins njóti enn réttarstöðu sakborninga. Hann segir ekki liggja fyrir hvort eða hvenær gefin verði út ákæra í málinu, það sé enn til rannsóknar.

„Málið hefur nú yfir sér einhvern vandræðablæ, verð ég að segja,“ segir Steinbergur Finnbogason, verjandi annars sakborninganna. Hann segist engar upplýsingar hafa fengið um gang rannsóknarinnar annan en að honum og skjólstæðingi hans hafi verið tilkynnt fyrir alllöngu að rannsókn málsins væri lokið og á leiðinni til ákærusviðs þar sem tekin yrði ákvörðun um hvort ákært yrði í málinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×