Erlent

Enn einn íhaldsmaðurinn segir af sér vegna „útþynntrar útgáfu af Brexit“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Scott Mann er níundi íhaldsmaðurinn í röð sem segir af sér vegna stefnu forsætisráðherra.
Scott Mann er níundi íhaldsmaðurinn í röð sem segir af sér vegna stefnu forsætisráðherra. Vísir/getty

Scott Mann, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði af sér í dag vegna „útþynntrar útgáfu af Brexit“. Þetta gerir hann að níunda íhaldsmanninum sem lætur af störfum vegna Brexit-mála undir stjórn Theresu May, forsætisráðherra Breta. Í síðustu viku sögðu af sér tveir þungavigtarmenn í ríkisstjórn May, þeir Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og David Davis, fyrrverandi ráðherra útgöngumála. 

Mann segir af sér til að láta í ljós óánægju sína með hið svokallaða „mjúka“ Brexit. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér segist hann ekki geta slegið af þeim kröfum kjósendur gerðu til hans varðandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram á Sky News.

„Ég er ekki til í að tefla í tvísýnu vilja þeirra til þess eins að ná fram útþynntri útgáfu af Brexit“

Það hafi verið skýr niðurstaða kosninganna fyrir tveimur árum að kjósendur vilji að Bretar stjórni sjálfir fiskveiði-og landbúnaðarstefnu landsins, lögum og landamærum.

Kallar eftir því að kosið verði á ný
Vísir sagði frá því í dag að Justine Greening, fyrrverandi menntamálaráherra Bretlands í ríkisstjórn Theresu May, kalli eftir því að kosið verði aftur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þessari skoðun sinni kom hún á framfæri í Times í dag.

May útilokar þjóðaratkvæðagreiðslu
Theresa May, forsætisráðherra, ávarpaði í kjölfarið tillögu Greening. Hún sagði að það yrði ekki undir neinum kringumstæðum blásið til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Brexit-samningar undir hennar handleiðslu séu hinir einu réttu fyrir þjóðina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.