Matthías Vilhjálmsson gæti snúið aftur á fótboltavöllinn eftir nær árs fjarveru þegar Rosenborg tekur á móti Val í seinni leik liðanna í fyrstu umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Matthías sleit krossband í ágúst í fyrra og hefur ekki spilað fyrir norsku meistarana síðan. Hann er hins vegar í leikmannahópnum í kvöld og verður á varamannabekk Rosenborg.
Valur er í frábærri stöðu eftir fyrri leik liðanna á Hlíðarenda sem Íslandsmeistararnir unnu 1-0.
„Ég held við getum ekki vonast eftir meira en 10 mínútum frá Matta, en það er rétt framhald á endurkomu hans að hann sé í leikmannahópnum í kvöld. Ef allt gengur eftir áætlun ætti hann að geta spilað með varaliðinu í lok mánaðarins en það er mikilvægt að fara varlega,“ sagði þjálfari Rosenborg, Kare Ingebrigtsen, við heimasíðu félagsins.
Leikurinn í Þrándheimi hefst klukkan 17:45 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.

