Lífið

Miðluðu brjóstnálar Bretadrottningar leynilegum skilaboðum til Trumps?

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Elísabet Bretadrottning og Donald Trump Bandaríkjaforseti við Windsor-kastala á föstudag. Rauður hringur hefur verið gerður utan um brjóstnál drottningar.
Elísabet Bretadrottning og Donald Trump Bandaríkjaforseti við Windsor-kastala á föstudag. Rauður hringur hefur verið gerður utan um brjóstnál drottningar. Vísir/getty
Opinber heimsókn Bandaríkjaforseta Donalds Trumps til Bretlands vakti athygli heimspressunnar um liðna helgi. Athygli netverja hefur nú beinst að nælum Bretadrottningar, sem hún heldur mjög upp á og skartar við nær öll tilefni, og skilaboðunum sem þær gætu átt að miðla til forsetans.

Elísabet hitti Trump aðeins einu sinni á meðan heimsókn hans stóð en forsetinn dvaldi í Bretlandi í þrjá daga. Twitter-notandi hefur nú rýnt í brjóstnálarnar sem drottningin bar þessa þrjá daga og bendir auk þess á að hún velji nælurnar iðulega af mikilli kostgæfni fyrir hvern viðburð – og þá segi þær oft meira en þúsund orð.

Fyrsta dag heimsóknarinnar, daginn sem Trump mætti til Bretlands, skartaði Bretadrottning brjóstnál sem hún fékk að gjöf frá forverum Trump-hjónanna í embætti, Barack og Michelle Obama. Flestum er eflaust kunnugt um að lengi hefur andað köldu milli Trump og Obama og hefur sá fyrrnefndi gjarnan verið afar óvæginn í garð þess síðarnefnda.

Elísabet Bretadrottning með Obama-næluna ásamt erkibiskupnum af Kantaraborg og Sheikh Ahmad Al-Tayeb.Vísir/getty
Næsta dag bauð drottningin forsetahjónunum í te og hefur sú heimsókn jafnframt vakið athygli – og reiði. Trump mætti til að mynda of seint til boðsins auk þess sem hann var gagnrýndur fyrir að æða á undan drottningunni er þau gengu saman við hátíðlega athöfn fyrir utan Windsor-kastala.

Enn og aftur vakti brjóstnál drottningar athygli en um var að ræða sömu nælu og móðir Elísabetar setti upp við jarðarför eiginmanns síns, Georgs sjötta Bretakonungs, sem lést árið 1952. Hefur næluval drottningar þótt táknrænt fyrir tilfinningar hennar gagnvart Bandaríkjaforseta – þó ekkert sé hægt að fullyrða í þeim efnum.

Bretadrottning með næluna sem móðir hennar setti upp í jarðarför eiginmanns síns.Vísir/Getty
Á þriðja degi heimsóknar Trumps tók Elísabet á móti belgísku konungshjónunum og setti upp nælu sem hún fékk að gjöf frá kanadísku þjóðinni í fyrra. Trump hefur verið harðorður í garð kanadískra stjórnvalda í gegnum tíðina, nú síðast þegar hann sagði Kanadamenn hafa „brennt Hvíta húsið til grunna“ í símtali við Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada.

Bretadrottning ásamt belgísku konungshjónunum.Vísir/GEtty
Téðan Twitter-þráð um „brjóstnálasamsærið“ má nálgast hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×