Erlent

Sturtuferðir Churchills og náið samband Breta og Bandaríkjamanna

Milliríkjasamband Bretlands og Bandaríkjanna hefur að mörgu leyti verið hornsteinn vestræns samstarfs í meira en heila öld. Þetta er fyrri hluti fréttaskýringar um þetta sérstaka og nána samstarf þjóðanna.

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Bílstjóri pússar limmósínuna sem flutti Donald Trump til fundar með Theresu May Vísir/Getty
Vel fór á með þeim félögum þó að Roosevelt þætti full mikið að fylgjast með breskum kollega sínum í sturtuVísir/Getty
Þetta er fyrri hluti fréttaskýringar um milliríkjasamband Bandaríkjanna og Bretlands, seinni hluti birtist eftir helgi.

Milliríkjasamband Bretlands og Bandaríkjanna hefur að mörgu leyti verið hornsteinn vestræns samstarfs í meira en heila öld. Það var Winston Churchill sem var fyrstur til að nefna sambandið „The Special Relationship“ árið 1944.



Churchill var ötull talsmaður þess að styrkja samstarf ríkjanna enn frekar. Hann vildi að samband Breta og Bandaríkjanna yrði svo náið að meira að segja Roosevelt Bandaríkjaforseta var stundum nóg um.

Í einu tilviki lét Churchill aðstoðarmann sinn kalla eftir Roosevelt en þegar sá síðarnefndi kom inn í einkaherbergi breska forsætisráðherrans stóð hann kviknakinn undir sturtunni.

Þegar Roosevelt ætlaði að afsaka sig og fara sagði Churchill honum að gera sig heimakominn því forsætisráðherra Bretlands hefði ekkert að fela fyrir forseta Bandaríkjanna. Þeir spjölluðu síðan saman á meðan Churchill kláraði baðið.

Margar bækur hafa verið skrifaðar um hið sérstaklega nána samband Bandaríkjanna og Bretlands. Ekki er ætlunin að rekja það með tæmandi hætti hér heldur stikla á stóru varðandi það helsta sem hefur mótað sambandið og áhrif þess á heiminn.

Þríhyrningsviðskiptin voru afar arðbærVísir/Getty

Þríhyrningur þrældóms og auðæfa

Það fyrsta sem tengir ríkin tvö er auðvitað að Bandaríkin eiga uppruna sinn sem bresk nýlenda í byrjun 17. aldar. Fyrst um sinn voru flestir „landnemarnir“ frá Englandi og Wales en fljótlega tóku Írar og Skotar einnig að streyma til Vesturheims.

Frá upphafi var það stefna Breta að koma í veg fyrir að iðnaður næði fótfestu í nýlendum sínum. Þær áttu að vera háðar Lundúnum og senda heim óunnar nýlenduvörur í skiptum fyrir verðmætari varning frá Bretlandi.

Smám saman varð þrælahald órjúfanlegur hluti af nýlendustefnu Breta sem leiddi til hinna svokölluðu þríhyrningsviðskipta.

Þau fólust í að sigla með vefnaðarvörur og romm til Afríku þar sem varningurinn var seldur og þrælar keyptir í staðinn. Næst var siglt með þrælana til Ameríku þar sem þeir voru seldir og loks sigldu skipin heim til Englands drekkhlaðin af nýlenduvörum á borð við sykur, tóbak og bómull. 

Þríhyrningurinn var því þannig að bresku útflutningsvörurnar styrktu í sessi þrælahaldara í Afríku, þrælarnir voru notaðir til að auka framleiðslu á nýlenduvörum í Ameríku og nýlenduvörurnar juku ríkidæmi Breta heimafyrir.

Jay samningurinn svonefndi.Wikimedia Commons
Allt var þetta gríðarleg arðbært en auðvitað leituðu peningarnir í fárra vasa og mörgum íbúum bresku nýlendanna gramdist skattheimta hinnar fjarlægu krúnu. Bretar höfðu safnað skuldum í stríðsrekstri sínum gegn Frökkum og ætluðust til að nýlendurnar borguðu brúsann.

Eins og flestir þekkja leiddi þetta til þess að Bandaríkin lýstu yfir sjálfstæði árið 1776 og sigruðu Breta í stríðinu sem fylgdi í kjölfarið.

Það hjálpaði til að Bretar áttu enga bandamenn í Evrópu á þessum tíma. Frakkar, Hollendingar og Spánverjar gripu tækifærið til að koma höggi á Breta með því að senda bandarísku uppreisnarmönnunum liðsstyrk.

Eftir stríðið hófust milliríkjaviðskipti Breta á ný og skipuðu strax mikilvægan sess í hagkerfi beggja. Þrátt fyrir að stríð brytist út á ný á milli Frakklands og Bretlands ákváðu Bandaríkjamenn að halda sig utan átakanna og efla sambandið við sína gömlu nýlenduherra.

Jay samningurinn svokallaði, nefndur eftir samningamanninum John Jay, var undirritaður árið 1794. Sumir sagnfræðingar vilja meina að þessi samningur hafi lagt grundvöllinn að hinu sérstaka sambandi Bandaríkjanna og Bretlands.

Bretar samþykktu meðal annars að greiða bætur fyrir skemmdir sem unnar voru á skipaflota Bandaríkjanna í kjölfar stríðsins. Þá felldu þjóðirnar niður gagnkvæma innflutningstolla og viðskipti blómstruðu í rúman áratug.

Veðjuðu á rétta Evrópuþjóð

Sagnfræðingurinn Joseph Ellis segir að í Jay samningnum felist fyrsta formlega viðurkenningin á því hversu háðir Bandaríkjamenn voru viðskiptum við Bretland. Þeir hafi í raun veðjað á að Bretar en ekki Frakkar myndu ná undirtökunum í Evrópu á nítjándu öld og það gekk eftir.

Það setti að vísu smávægilegt strik í reikninginn þegar stríð braust út á milli Bretlands og Bandaríkjanna árið 1812. Ástæðurnar voru margvíslegar en fyrst og fremst var Bandaríkjamönnum misboðið vegna framgöngu Breta undanfarin ár.

Bretar höfðu sett Frakkland í herkví og stöðvað fjölda bandarískra flutningaskipa sem voru á leið þangað. Í sumum tilvikum lögðu Bretar hald á skip og varning, auk þess sem þeir neyddu bandaríska sjómenn í þrældóm fyrir breska sjóherinn.

Á sama tíma voru Bretar að þjálfa og vopna sveitir innfæddra Indjána til að gera uppreisn gegn bleiknefjum.

Að endingu var James Madison Bandaríkjaforseta nóg boðið og hann lýsti yfir stríði sem varði í þrjú ár en breytti litlu sem engu hvað varðar landamæri Norður-Ameríku.

Það helsta sem menn muna úr því stríði var þegar breskt herlið réðst inn í höfuðborgina Washington og brenndi Hvíta húsið til grunna. Það var samt fyrirgefið merkilega fljótt.

Bandaríkin eigna sér álfuna

Þegar James Monroe komst til valda sem forseti Bandaríkjanna mótaði hann stefnu eða kenningu sem átti eftir að marka þáttaskil í sögu Ameríku. Árið var 1823.

Monroe tilkynnti einfaldlega  heimsbyggðinni að tími evrópskrar nýlendustefnu í Norður- og Suður-Ameríku væri liðinn. Þetta væri nú óumdeilt áhrifasvæði Bandaríkjanna. Héðan í frá yrði litið á allar tilraunir Evrópuveldanna til að komast til áhrifa í Vesturheimi sem stríðsyfirlýsingu gegn Bandaríkjunum.

Í fyrstu virðist sú stefna stangast á við hagsmuni Bretlands en svo var ekki. Á þessum tíma voru flestar nýlendur Spánverja að brjótast til sjálfstæðis og alda byltinga gekk yfir rómönsku Ameríku.

Á sama tíma ríkti stöðugleiki í bresku nýlendunni Kanada og yfirráð Breta voru óumdeild. Það þýddi að með því að framfylgja stefnu Monroes gátu Bretar tryggt endalok spænska heimsveldisins án þess að þurfa sjálfir að veita neinum nýlendum sjálfstæði.

Það vill líka oft gleymast að án breska sjóhersins var Monroe kenningin ekkert nema orðin tóm. Bandaríkin bjuggu ekki yfir neinum sjóher sem hefði getað framfylgt stefnunni og voru alfarið upp á Breta komnir hvað það varðaði fyrstu áratugina.

Þegar borgarastríðið braust út í Bandaríkjunum árið 1861 var það meðal annars vegna þess að leiðtogar suðurríkjanna gerðu ráð fyrir stuðningi Breta og Frakka.

Ástæðan var „King Cotton“, hugtak sem notað var til að lýsa efnahagslegu mikilvægi bómullarútflutnings frá suðurríkjum Bandaríkjanna til Evrópu.

Bómullarplantekra í Bandaríkjunum á 19. öld

Bandarískur iðnaður byggður upp fyrir breskt fé

Suðurríkjamenn misreiknuðu sig hins vegar hrapalega. Þó að þeir nytu ákveðinnar samúðar meðal efri stéttanna í Bretlandi var málstaður bandarísku þrælahaldaranna aldrei vinsæll meðal bresks almennings.

Þegar suðurríkin reyndu að setja þrýsting á Evrópuþjóðirnar með því að stöðva bómullarútflutning skutu þau sig aftur í fótinn.

Svo vildi nefnilega til að Bretar áttu einmitt óhemjumiklar uppsafnaðar birgðir af bómull á þessum tíma. Þegar hann hætti að berast frá Ameríku vegna borgarastríðsins rauk bómullinn upp í verði og gerði marga breska kaupmenn vellauðuga.

Samtímaheimildir benda til þess að Bretar hafi í upphafi íhugað íhlutun í borgarastríðið í Bandaríkjunum í samstarfi við Frakka en þær hugmyndir hafi fljótlega verið slegnar út af borðinu.

Það hefði aldrei borgað sig fyrir Breta þar sem þeir voru orðnir mjög háðir viðskiptum við Bandaríkin.

Á seinni hluta nítjándu aldar byrjaði bandarískur iðnaður að taka fram úr þeim breska. Lundúnir voru þó áfram fjármálamiðstöð heimsins og það var meðal annars í gegnum breskar kauphallir sem iðnvæðing Bandaríkjanna var fjármögnuð.

Sem dæmi má nefna að lestarkerfið sem lagði grunninn að bandaríska hagkerfinu var að stórum hluta byggt fyrir fé breskra fjárfesta.

Veggmynd frá tíma sáttanna mikluWikimedia Commons

Sættirnar miklu

Segja má að milliríkjasamband Bretlands og Bandaríkjanna hafi þarna verið byrjað að taka á sig þá mynd sem við þekkjum í dag. Árin frá 1895 og fram að fyrra stríði 1914 eru stundum nefnd „The Great Rapprochement“ eða sættirnar miklu.

Lykilatriði í þessum sáttum var óvænt ákvörðun Breta um að styðja Bandaríkjamenn í stríðinu gegn Spáni sem snerist meðal annars um yfirráð yfir Kúbu. Flestar aðrar Evrópuþjóðir studdu Spánverja.

Í þakklætisskyni fyrir þann stuðning ákvað Bandaríkjastjórn að standa með Bretum í seinna Búastríðinu, gegn vilja bandarísks almennings á þeim tíma.

Efnahagslegt bandalag þjóðanna var byrjað að taka á sig mynd víðtækara hernaðarbandalags. Um aldamótin 1900 börðust þær aftur saman, í þetta sinn sem hluti af alþjóðlegu bandalagi sem barði niður Boxarauppreisnina í Kína.

Árið 1907 lagði hinn svonefndi Hvíti floti úr höfn frá Virginíu í Bandaríkjunum. Um var að ræða 16 orrustuskip ásamt fylgiskipum og voru þau öll máluð hvít.

Hugmyndina átti Theodore Roosevelt þáverandi Bandaríkjaforseti. Hann skipaði flotanum að sigla umhverfis heiminn til að bera út boðskap friðar en í raun var hann ekki síður að bera út þann boðskap að Bandaríkin væru vaxandi hernaðarlegt stórveldi.

Ferðin tók tvö ár og vakti athygli hvert sem flotinn fór. Bandaríkin bjuggu nú yfir næststærsta sjóher jarðar á eftir Bretum. Saman réðu þessar tvær þjóðir lögum og lofum á heimshöfunum.

Þetta er fyrri hluti fréttaskýringar um milliríkjasamband Bandaríkjanna og Bretlands, seinni hluti birtist eftir helgi.


Tengdar fréttir






×