Erlent

Fjölskyldan fannst hangandi úr loftinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Nágrannar hópast saman við verslunina eftir að fregnir bárust af líkfundinum.
Nágrannar hópast saman við verslunina eftir að fregnir bárust af líkfundinum. BBC
Ellefu fjölskyldumeðlimir fundust látnir í húsi einu í indversku höfuðborginni Nýju-Delí - þar af eru tíu þeirra sagðir hafa hangið neðan úr þaki hússins. Kona á áttræðisaldri var sú eina sem lá á gólfinu. Búið var að kefla og binda saman hendur flestra hinna látnu.

Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvernig andlát þeirra bar að garði og hefur lögreglan ekki útilokað að um fjöldamorð kunni að vera að ræða.

Talsmenn lögreglunnar segja hins vegar að á vettvangi hafi fundist vísbendingar um „dulræna athöfn.“ Er þar vísað til fjölda handskrifaðra bréfa sem fundust í húsinu sem sögð eru hafa ýmsar yfirnáttúrulegar og dulspekilegar vísanir.

Málið er enn til rannsóknar, niðurstöður krufninganna liggja ekki fyrir og eru lögreglumenn að yfirheyra nágranna og yfirfara upptökur úr öryggismyndavélum.

Gurcharan Singh gekk fram á líkin þegar hann ætlaði sér ða kaupa mjólk.BBC
Í frétt breska ríkisútvarpsins segir að fjölskyldan hafi rekið búð í hverfinu og hafst við í íbúð fyrir ofan verslunina. Maður sem ætlaði sér að kaupa mjólk í versluninni gekk fram á líkin á sunnudagsmorgun.

„Þegar ég gekk inn í verslunina voru allar dyr opnar og líkin héngu neðan úr þakinu,“ er haft eftir mjólkurkaupandanum á vef BBC.

Meðal hinna látnu eru tveir bræður ásamt eiginkonum þeirra og börnum, auk fyrrnefndrar konu á áttræðisaldri. Hundur fjölskyldunnar fannst á lífi.

Líkfundurinn er sagður hafa vakið óhug í hverfinu - ekki síst vegna þess að hin látnu voru talin hamingjusöm og mikilvægur hluti nærsamfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×