Innlent

Rannsaka hvort mennirnir hafi stundað skipulagða brotastarfsemi víða um land

Gissur Sigurðsson og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Frá Fáskrúðsfirði þar sem mennirnir voru handteknir í gær.
Frá Fáskrúðsfirði þar sem mennirnir voru handteknir í gær. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Lögreglan á Austurlandi rannsakar nú hvort tveir erlendir karlmenn, sem hún handtók í gær, hafi stundað skipulögð innbrot og þjófnað á nokkrum stöðum á landinu að undanförnu. Fleiri lögregluumdæmi taka þátt í rannsókninni.

Aðdragandi handtökunnar var sá að að þegar íbúi á Fáskrúðsfirði kom að innbrotsþjófi á heimili sínu í gær, kýldi þjófurinn húsráðanda í magann og komst undan á hlaupum. Hann fór upp í bíl sem ók á brott á ofsahraða.

Lögreglan veitti honum eftirför, en brátt var ákveðið að senda lögreglubíl frá Egilsstöðum til að gera bílnum fyrirsát í grennd við Breiðdalsvík. Þar hafnaði bíllinn utan vegar og reyndust þá tveir menn vera í honum og voru þeir báðir handteknir og vistaðir í fangageymslum.

Að sögn Þórhalls Árnasonar varðstjóra í lögreglunni á Austurlandi eru yfirheyrslur hafnar, en rannsóknin teljist þó enn á frumstigi. Grunur leiki þó á að mennirnir hafi komið hingað til lands gagngert til að stunda þjófnað og að þýfi hafi meðal annars fundist í bíl þeirra. Túlkar aðstoða við yfirheyrslunar, sem munu vera á byrjunarstigi.

Möguleg tengsl við innbrot á Norður- og Vesturlandi

Pétur Björnsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi vestra, segir í samtali við Vísi að verið sé að rannsaka hvort innbrotið á Fáskrúðsfirði tengist innbroti á Sauðárkróki sem framið var á mánudag, og þá enn fremur hvort þar hafi verið sömu menn að verki.

„Við erum að vinna í samvinnu við lögregluna á Austurlandi til að komast að því hvort þetta tengist,“ segir Pétur í samtali við Vísi en ekkert sé þó hægt að fullyrða enn þá um tengsl málanna.

Þá hefur fréttastofa auk þess heimildir fyrir því að brotist hafi verið inn í hús á Hellissandi um helgina og þaðan stolið skartgripum og reiðufé. Ekki náðist í lögregluna á Vesturlandi í dag til að spyrjast fyrir um möguleg tengsl innbrotsins á Hellissandi og innbrotanna á Sauðárkróki og Fáskrúðsfirði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×