Innlent

Buðu strákana velkomna heim

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá móttökunni í höfuðstöðvum KSÍ í gærkvöldi.
Frá móttökunni í höfuðstöðvum KSÍ í gærkvöldi. stjórnarráðið
Ríkisstjórnin bauð til óformlegrar móttöku í höfuðstöðvum KSÍ í gærkvöldi þar sem karlalandsliðið í fótbolta var boðið velkomið heim. Voru landsliðshópnum og fjölskyldum þeirra færðar þakkir og kveðjur.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta-og menningarmálaráðherra, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Eliza Reid, forsetafrú, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og staðgengill borgarstjóra, voru viðstödd móttökuna.

„Strákarnir hafa veitt þjóðinni innblástur og mikla gleði síðustu vikurnar og mér þótti vænt um að geta komið þeim skilaboðum til þeirra og fjölskyldna þeirra við heimkomuna í gærkvöldi. Samvinnan og baráttuþrekið þeirra hefur kennt okkur margt og þeir mega vita það að við erum öll sem eitt afar stolt af þeim,” sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

„Það er sjaldgæft að nær allir landsmenn upplifi sömu tilfinningarnar á sama tíma – en það gerist stundum og sér í lagi þegar við fylgjumst með afreksfólkinu okkar á íþróttasviðinu. Strákarnir hafa náð eftirtektarverðum árangri. Kraftur þeirra, samstaða og baráttuhugur eru til fyrirmyndar og landsmenn, og aðrir aðdáendur, fullir þakklætis og stolts í þeirra garð,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.


Tengdar fréttir

Svona kvöddu strákarnir HM á Instagram

Allir leikmenn íslenska landsliðsins eru virkir á Instagram og margir þeirra birtu hugleiðingar sínar eftir að Ísland féll úr leik á HM í Rússlandi í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×