Fótbolti

Rúnar Alex: Vonandi skilar pressan frá okkur á Hannes sér inn á völlinn

Tómas Þór Þórðarson í Kabardinka skrifar
Hannes Þór Halldórsson heldur strákunum ungu fyrir aftan sig.
Hannes Þór Halldórsson heldur strákunum ungu fyrir aftan sig. vísir/vilhelm

Rúnar Alex Rúnarsson, einn af markvörðum íslenska landsliðsins á HM, er í bullandi samkeppni um varamarkvarðarstöðu liðsins við Frederik Schram en hvorugur þeirra veit í raun og veru hver er annar í röðinni á eftir Hannesi Þór Halldórssyni.

Rúnar er alls ekki óvanur samkeppni en hún hefur verið mikil hjá honum í danska úrvalsdeildarliðinu Nordsjælland þar sem að hann stendur á milli stanganna í hverjum leik.

„Þetta snýst bara um að æfa vel og segja sem minnst. Maður getur alveg talað þegar að það á við en í flestum tilvikum er best að þegja og sýna sig inni á vellinum,“ segir Rúnar um samkeppnina í Danmörku.

Nordsjælland hefur fengið nokkra gæða markverði til liðs við sig í baráttuna við Rúnar. Þeir fengu undrabarn frá Ajax og einn af landsliðsmarkvörðum Svía en engum tókst að slá Rúnar út úr liðinu.

Rúnar Alex Rúnarsson spilar í góðu liði í Danmörku. vísri/vilhelm

Veit hvernig þetta er

„Þeir voru samt alltaf mjög sanngjarnir. Þeir tilkynntu mér alltaf ef þeir voru að fara að fá einhvern nýjan. Þeir eru mjög sanngjarnir með það, að sá sem er bestur spilar sama hvað hann heitir. Þrátt fyrir að menn með svaka ferilskrár voru keyptir upplifði ég aldrei eins og að þeir voru fengnir til þess að henda mér á bekkinn,“ segir Rúnar.

„Þetta hjálpar mér klárlega í þessari stöðu því ég er orðinn vanur þessu. Því verður það auðveldara fyrir mig að tækla hverja stund fyrir sig.“

Markvörðurinn 21 árs gamli veit því vel hvernig Hannesi Þór líður í landsliðinu. Hannes er með tvo unga og spólgraða markverði fyrir aftan sig sem báðir eru atvinnumenn og bíða eftir tækifærinu að slá aðalmannin nút.

„Ég veit alveg hvernig þetta er. Ég held líka og vona það fyrir Íslands hönd að það muni skila sér inn á völlinn að Hannes viti af pressunni frá okkur tveimur ungum og góðum markvörðum fyrir aftan sig,“ segir Rúnar Alex Rúnarsson.

Vísir er með öflugt teymi í Rússlandi sem verður með ítarlegan fréttaflutning af íslenska liðinu á HM. Fylgist með á samfélagsmiðlum okkar - á FacebookTwitter og Instagram.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.