Erlent

Mueller varar við áframhaldandi afskiptum Rússa

Kjartan Kjartansson skrifar
Mueller rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulegt samráð þeirra við framboð Donalds Trump.
Mueller rannsakar afskipti Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulegt samráð þeirra við framboð Donalds Trump. Vísir/EPA
Saksóknarar á vegum Roberts Mueller, sérstaka rannsakanda bandaríska dómsmálaráðuneytisins, fullyrða að tilraunir Rússa til að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum séu enn í gangi. Þeir hafa krafist þess að gögn í máli gegn fyrirtækjum og einstaklingum sem reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar verði haldið leyndum.

Kröfuna settu saksóknararnir fram í máli gegn fyrirtækinu Concord Management and Consulting. Það var ákært ásamt þrettán rússneskum einstaklingum og tveimur öðrum fyrirtækjum í febrúar og sakað um að vera hluti af rússneskri áróðursherferð á netinu sem átti að hafa áhrif á bandaríska kjósendur.

Saksóknararnir telja að ef sönnunargögn í málinu yrðu birt opinberlega eða þeim deilt án leyfis þá myndi það aðstoða leyniþjónustur annarra ríkja, sérstaklega Rússlands, í frekari aðgerðum þeirra gegn Bandaríkjunum og einnig einstaklinga og fyrirtæki sem yfirvöld telja að reyni enn að hafa afskipti, að því er segir í frétt Washington Post.

Þingkosningar verða haldnar í Bandaríkjunum í nóvember.

Jevgení Prígosjín er náinn bandamaður Pútín Rússlandsforseta.Vísir/EPA

Óvinir gætu lagað sig að aðferðum rannsakenda

Sérstaklega vísuðu saksóknararnir til þess að lögmenn Concord gætu afhent Jevgeníj Viktoróvitsj Prígosjín, stofnanda fyrirtækisins, gögn sem þeir eiga rétt á fyrir málsvörnina. Prígosjín hefur verið nefndur „kokkur Pútíns“ vegna náinna tengsla hans við Vladímír Pútín, forseta Rússlands. Hann er ákærður í málinu og bandarísk stjórnvöld hafa beitt hann refsiaðgerðum.

Gögn málsins lýsa því meðal annars hvaða heimildarmenn, aðferðir og tækni var notuð til að afhjúpa tilraunir Rússa til afskipta af forsetakosningunum, að sögn saksóknaranna. Komist gögnin á flakk gætu andstæðingar Bandaríkjanna nýtt sér þau til að aðlaga sig.

Bandarískar leyniþjónustustofnanir segja að útsendarar rússneskra stjórnvalda hafi reynt að hjálpa Donald Trump að ná kjöri sem forseti árið 2016. Pútín sjálfur hafi gefið skipun um aðgerðirnar.


Tengdar fréttir

Refsa Rússum fyrir afskiptin

Ríkisstjórn Donald Trump hefur staðfest refsiaðgerðir gegn Rússlandi vegna afskipta yfirvalda þar af forsetakosningunum árið 2016 og tölvuárása.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×