Fótbolti

Aron: Nesi var frábær │Ánægður með formið sem ég er í

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Aron Einar og Gylfi Þór Sigurðsson í leikslok
Aron Einar og Gylfi Þór Sigurðsson í leikslok Vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson var ánægður með stigið gegn Argentínu sem og formið sem hann er í, fyrirliðinn spilaði um 75. mínútur í leiknum sem endaði með 1-1 jafntefli.

„Klassa punktur,“ voru fyrstu orð fyrirliðans Arons Einars Gunnarssonar í viðtali við RÚV í beinni útsendingu eftir leikinn. Sergio Aguero kom Argentínu yfir í fyrri hálfleik áður en Alfreð Finnbogason jafnaði fjórum mínútum seinna.

„Þetta var brekka í seinni hálfleik. Við vissum að þeir myndu sækja meira þá. Við fengum fullt af færum í fyrri hálfleik en við héldum boltanum ekki nógu vel í seinni og vorum of passívir.“

„Nesi [Hannes Þór Halldórsson] var frábær í dag. Þvílík spilamennska hjá Hannesi,“ sagði fyrirliðinn um markvörðinn sem varði meðal annars vítaspyrnu frá Lionel Messi, einum besta leikmanni heims.

Aron Einar var að spila sinn fyrsta leik eftir erfið meiðsli. Hann spilaði nær allan leikinn, var skipt út af á 76. mínútu. Hvernig er standið á fyrirliðanum?

„Líkaminn er flottur. Lungun tóku smá tíma, var svolítið þurr í munninum fyrstu tíu mínúturnar. Náði að vinna mig hægt og rólega inn í leikinn og er mjög ánægður með hvernig formi ég er í.“

Ísland er komið með eitt stig í D-riðli en næsti leikur er á móti Nígeríu 22. júní. Strákarnir taka tvo daga í endurheimt og fara svo á fulla ferð að undirbúa sig fyrir þann leik.

„Þetta setur tóninn en það er stórleikur eftir fimm daga á móti Nígeríu sem við þurfum að fókusa strax á því það er enn mikilvægari leikur,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.


Tengdar fréttir

Einkunnir Íslands: Hannes fær 10 og var maður leiksins

Hannes Þór Halldórsson, markvörður íslenska landsliðsins, var maður leiksins að mati Vísis þegar Ísland gerði 1-1 jafntefli á móti Argentínu í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu í fótbolta í Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×