Er þetta liður í áætlun að gera Dal hinna föllnu að stað þar sem hægt er að minnast og fræðast um spænsku borgarastyrjöldina og þar sem ekki verði hægt að upphefja hershöfðingjann og einræðisherrann, að því er fram kemur í frétt Reuters.
Aðstoðarforsætisráðherrann Carmen Calvo segir að meirihluti sé á þinginu fyrir ákvörðuninni að flytja líkamsleifar Franco. Vísar hún þar í tillögu sem meirihluti þings samþykkti á síðasta ári. Þó að sú atkvæðagreiðsla hafi ekki verið bindandi þá segir Calvo að ný stjórn muni nú verða við þeim vilja.
Sósíalistinn Pedro Sanchez tók nýlega við af Mariano Rajoy sem forsætisráðherra Spánar, en flokkur hans vill að Dalur hinna föllnu, sem er að finna um fimmtíu kílómetrum norðvestur af Madríd, verði breytt í upplýsingamiðstöð um borgarastríðið. Flokkur Rajoy, PP, hefur hins vegar lagst gegn þessum hugmyndum.

Fasistar og skoðanabræður Franco flykkjast enn í Dal hinna föllnu á dánardegi einræðisherrans, 20. nóvember, á hverju ári. Það var Franco sjálfur sem opnaði minnisverðann í Dal hinna föllnu árið 1959. Hann stýrði Spáni á árunum 1936 til 1975.