Enski boltinn

Vill að Gerrard verði spilandi stjóri hjá Rangers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard í góðgerðaleik Dirk Kuyt  á dögunum.
Steven Gerrard í góðgerðaleik Dirk Kuyt á dögunum. Vísir/Getty

Steven Gerrard er tekinn við sem knattspyrnustjóri Rangers í Skotlandi en ein goðsögnin úr sögu Rangers vill sjá Gerrard ganga enn lengra.

Andy Goram var markvörður Rangers-liðsins á árunum 1991 til 1998 þegar félagið vann skosku deildina sex sinnum. Hann hefur kallað eftir því að Gerrard taki skóna af hillunni.

Steven Gerrard setti knattspyrnuskóna á hilluna árið 2016 og hóf störf sem þjálfari hjá Liverpool. Hann stökk hinsvegar á það þegar honum bauðst að taka við liði Rangers á dögunum.

Gerrard lék síðast með LA Galaxy í bandarísku deildinni en allan sinn feril í Evrópu spilaði hann með Liverpool.

„Ef ég væri Steven Gerrard þá myndi ég byrja á því að taka skóna ofan af hillunni. Hann er tíu sinnum betri en allir þeir sem spila á miðjunni hjá Rangers í dag,“ sagði Andy Goram í viðtali við Daily Mail í Skotlandi.

„Hvað er hann gamall? 38 ára. Inn á völlinn með hann,“ bætti Goram við. Gerrard spilaði síðast á Bretlandseyjum með Liverpool tímabilið 2014-15.

„Ef þið hafið skoðað hvernig Rangers-liðið spilaði á síðasta tímabili þá getur enginn sannfært mig um að Steven Gerrard myndi ekki standa sig miklu betur en allir leikmenn liðsins í dag,“ sagði Goram.

„Hann væri yfirmaður á miðjunni á móti flestum liðum. Eiginlega öllum liðum ef ég segi alveg eins og er,“ sagði Goram.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.