Fótbolti

Kári: Fyrri hálfleikur var eins og alvöru keppnisleikur

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kári Árnason stóð vaktina í vörn Íslands í kvöld auk þess sem hann kom Íslandi á bragðið í upphafi leiks.

„Þeir voru bara alveg sofandi og ég nýtti mér það. Ég laumaði mér á bak við varnarmanninn og fékk dauðafæri,“ sagði Kári í viðtali við Arnar Björnsson í leikslok.

Kári kveðst ánægður með frammistöðu Íslands í fyrri hálfleik en aftur á móti hundfúll með síðari hálfleikinn.

„Fyrri hálfleikurinn var mjög flottur og ég er mjög ánægður með hann. Það var eins og alvöru keppnisleikur hjá okkur; við vorum á fullu tempói og menn fóru almennilega í tæklingar.“

„Við virðumst bara hægja á öllu í síðari hálfleik og ætlum í eitthvað auto-pilot. Við erum ekki góðir í því. Við verðum að vera á fullu gasi allan tímann og ef menn eru ekki klárir í það verða þeir bara að láta skipta sér útaf,“ segir Kári sem viðurkennir að hugsunin um Rússland gæti hafa verið farin að laumast í undirmeðvitund leikmanna í síðari hálfleik.

„Auðvitað er þetta svolítið öðruvísi. Ganverjarnir voru orðnir reiðir eftir að við tókum harkalega á þeim í fyrri hálfleik og ég veit ekki hvort menn hafi verið orðnir hræddir við að þeir færu að gera eitthvað kjánalegt og meiða menn. Þeir voru hins vegar ekkert að því,“ sagði Kári.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×