Fótbolti

Birkir: Ekki hoppað úr neinum tæklingum í Rússlandi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Birkir Bjarnason var að vonum ánægður með fyrri hálfleik íslenska landsliðsins í knattspyrnu gegn Gana í lokaleik liðsins fyri HM í Rússlandi. Hann var ekki jafn ánægður með þann seinni en segir að leikmenn liðsins verði með allt á hreinu í fyrsta leik á HM.

„Við spiluðum mjög góðan fyrri hálfleik. Sköpuðum mikið og vorum þéttir varnarlega,“ sagði Birkir í samtali við Arnar Björnsson eftir leik en Ganverjar komust varla að í fyrri hálfleik og leiddi Ísland 2-0 í hálfleik.

Sjá einnig: Köstuðu frá sér sigrinum í kveðjuleiknum

Það seig þó á ógæfuhliðina í þeim seinni þar sem Ganverjar náðu að jafna fyrir lok leiksins gegn íslenska liðinu sem virkaði þreytt á lokaspretti leiksins.

„Það er korter í mót og við viljum allir vera heilir,“ sagði Birkir um ástæður þess að landsliðið gaf eftir forystuna í seinni hálfleik.

„Það er kannski skiljanlegt að við dettum aðeins í seinni hálfleik. Við erum með 2-0 og missum kannski aðeins einbeitinguna en við þurfum ekkert að hugsa neitt neikvætt um þennan leik. Við förum fullir sjálfstrausts í þetta mót,“ sagði Birkir.

Sjá einnig:Sjáðu Aron Einar taka spretti eftir leik

Segir hann að stemmningin í hópnum sé góð fyrir heimsmeistaramótið en landsliðið flýgur út á laugardag til Rússlands, þar sem lokaundirbúningur liðsins fyrir fyrsta leikinn í D-riðli fer fram, gegn silfurliði síðasta HM, Lionel Messi og félögum í Argentínu.

Segir Birkir að í Rússlandi muni alvaran taka við og þá verði andstæðingarnir ekki teknir neinum vettlingatökum eins og mögulega var raunin gegn Noregi og Gana í lokaleikjunum fyrir HM.

„Það verður ekki hoppað úr neinum tæklingum í Rússlandi.“


Tengdar fréttir

Hannes: Við erum hundsvekktir

Hannes Þór Halldórsson fagnaði því að komast heill í gegnum leikinn eftir að hafa misst af síðasta landsleik vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×