Fótbolti

Heimir: Aron verður klár fyrir Argentínu

Kolbeinn Tumi Daðason á Laugardalsvelli skrifar
Aron Einar í upphitun á Laugardalsvelli í dag.
Aron Einar í upphitun á Laugardalsvelli í dag. Vísir/Vilhelm
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, segir að Aron Einar Gunnarsson landsliðsfyrirliði verði klár fyrir fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi, gegn Argentínu í Moskvu eftir níu daga.

Aron Einar hitaði upp fyrir landsleik Íslands og Gana á Laugardalsvelli í kvöld sem lauk með 2-2 jafntefli. Fyrirliðinn fór svo út á völl til æfinga með öðrum varamönnum sem lítið eða ekkert spiluðu að leiknum loknum. Aron tók spretti og virkar í góðu standi.

Heimir sagði að við þær upplýsingar sem landsliðið hefði fengið af meiðslum áður en fyrirliðinn kom til móts við hópinn þá væri hann „mjög ánægður með hvar hann er staddur.“

Fyrirliðinn hefði tekið þátt í tveimur æfingum af fullum krafti.

„Hann er á fínu róli,“ sagði Heimir og bætti við: „Hann verður klár fyrir Argentínu.“

Sú forsenda væri auðvitað fyrir hendi að áfram gengi jafnvel á æfingum.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um það.“

 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×