Fótbolti

Hjörvar: Áhyggjuefni að við klúðrum forystunni í báðum leikjum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hjörvar Hafliðason, sérfræðingur Stöðvar 2 Sports, er þrátt fyrir tapleiki í síðustu vináttuleikjum Íslands fyrir HM bjartsýnn á þátttöku okkar manna á HM í Rússlandi.

Hann neitar því ekki að það er áhyggjuefni að okkar menn hafi ekki náð að fylgja eftir góðri byrjun í leikjunum tveimur gegn Noregi og Gana.

„Við ráðum því hvað við tökum úr þessum tveimur leikjum. Mér finnst ekki jákvætt að við klúðrum forystunni í þeim báðum og í gær var þetta enn einn vináttulandsleikurinn sem við vinnum ekki,“ sagði Hjörvar í Sportpakkanum á Stöð 2 í kvöld.

„En ef við horfum til þess jákvæða þá virist Gylfi vera heill og Hannes líka. Alfreð er að svo að spila vel. Það er margt jákvætt,“ sagði Hjörvar sem reiknar ekki með að það muni margt koma á óvart í byrjunarliði Heimis Hallgrímssonar í fyrsta leik Íslands á HM.

„Ég veit ekki hvort það ætti að teljast óvænt en Alfreð skoraði bæði gegn Noregi og Gana. Sjálfsagt þætti einhverjum óvænt að hann væri í byrjunarliðinu enda verið á bekknum í mikilvægu leikjunum hingað til.“

„Eins og þetta lítur út fyrir mér þá finnst mér líklegt að Heimir stilli upp Jóni Daða einum uppi á topp. En Alfreð með spilamennsku sinni í þessum tveimur leikjum hefur gefið honum smá hausverk.“

Sumarmessan verður á dagskrá Stöðvar 2 Sports alla daga þegar spilað verður á HM í Rússlandi. Þátturinn verður í umsjón Benedikts Valssonar sem verður með Hjörvar sem og aðra sérfræðinga Stöðvar 2 Sports sér til halds og trausts.

„Við ætlum að taka öll mál ítarlega fyrir en þátturinn er fyrir alla. Það verður fjallað um Ísland á hverjum degi en líka eitthvað um léttmeti eins og daglegar spurningakeppnir um HM. Þetta ætti að verða mjög skemmtilegt,“ sagði Hjörvar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×