Erlent

Zuckerberg biðst afsökunar

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Á fundinum var Zuckerberg meðal annars spurður hvort fyrirtækinu væri treystandi til þess að gera nauðsynlegar breytingar.
Á fundinum var Zuckerberg meðal annars spurður hvort fyrirtækinu væri treystandi til þess að gera nauðsynlegar breytingar. Vísir/Getty
Mark Zuckerberg, stofnandi og forstjóri Facebook, kom fyrir Evrópuþingið í Brussel í dag og var streymt frá fundinum í beinni útsendingu. Þar baðst hann afsökunar á þeim skaða sem Facebook hafi valdið með hlutverki sínu í Cambridge Analytica hneykslinu. Samkvæmt frétt BBC baðst hann einnig afsökunar á að hafa leyft „falsfréttum“ að birtast á Facebook.

Í byrjun fundar baðst Zuckerberg afsökunar á því að Facebook hafi verið notað til þess að valda skaða.

„Það voru mistök.“

Í dag var honum gert að svara fyrir gjörðir stjórnarmanna en Facebook deildi upplýsingum 87 milljóna notenda með greiningarfyrirtækinu Cambridge Analytica. Facebook hefur sætt harðri gagnrýni síðan í ljós kom að greiningarfyrirækið, sem vann fyrir forsetaframboð Donalds Trump árið 2016, komst yfir upplýsingarnar og hagnýtti þær í eigin þágu.



Snillingur sem skapaði stafrænt skrímsli

Á fundinum var Zuckerberg meðal annars spurður hvort fyrirtækinu væri treystandi til þess að gera nauðsynlegar breytingar. Var hann einnig spurður að því hvort hann vildi að fólk myndi minnast hans sem „snillingnum sem skapaði stafrænt skrímsli.“

Um miðjan apríl kom Zuckerberg tvívegis fyrir Bandaríkjaþing, annars vegar fyrir nefndum öldungadeildar þingsins og hins vegar fyrir þingnefnd. Þar viðurkenndi hann einnig að hafa gert mistök í máli breska geiningarfyrirtækisins. Eftir á að hyggja hefðu það verið mistök að trúa því að Cambridge Analytica hefði eytt gögnunum án þess að rannsaka málið frekar.

Zuckerberg sagði á fundinum að nú væri unnið að því að tryggja betur öryggi persónuupplýsinga notenda.


Tengdar fréttir

Zuckerberg kemur fyrir Evrópuþing

Zuckerberg verður gert að svara fyrir gjörðir stjórnarmanna en Facebook deildi upplýsingum 87 milljóna notenda með greiningarfyrirtækinu Cambridge Analytica.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×