Innlent

Bílasalar á Ísland og í Skandinavíu sagðir tala niður rafbíla

Kjartan Kjartansson skrifar
Bílasalar eru meðal annars sagðir latir til að selja rafbíla vegna þess að þeir hafi minni hagnað upp úr þeim og þá skorti tæknilega þekkingu á þeim.
Bílasalar eru meðal annars sagðir latir til að selja rafbíla vegna þess að þeir hafi minni hagnað upp úr þeim og þá skorti tæknilega þekkingu á þeim. Vísir/Vilhelm
Rannsakendur sem létust vera áhugasamir bílakaupendur fullyrða að bílasalir séu meiriháttar hindrun í vegi aukinnar sölu rafbíla í Skandinavíu og á Íslandi. Í fleiri en þremur af hverjum fjórum skiptum hafi bílasalar ekki minnst á rafbíla sem valkost við væntanlega viðskiptavini.

Sagt er frá rannsókninni í frétt á vef breska ríkisútvarpsins BBC en hún birtist í vísindaritinu Nature Energy. Rannsakendurnir heimsóttu 126 bílaumboð í fimmtán borgum í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Íslandi og ræddu við 250 sérfræðinga í bransanum í þessum sömu löndum.

Af bílaumboðunum 126 drógu mögulegir kaupendur þá ályktun að rafbíll væri vænlegri kostur en bensín- eða dísilbílar í aðeins 8,8% tilfella. Flestir mögulegir kaupendur fái engar upplýsingar um rafbíla.

Bílasalarnir eru aðallega sagðir stýra væntanlegum viðskiptavinum frá rafbílum með því að tala þá niður, gefa þeim rangar upplýsingar um drægi þeirra, minnast ekki á að rafbílar séu valkostur og að lýsa rafbílum sem síðri kosti en bensín- og dísilbílum.

Rannsakendurnir telja að afstaða bílasalanna mótist af því að þeir hafi minni hagnað upp úr sölu rafbíla, þá skorti tæknilega þekkingu á þeim og þeir telji tímafrekara að selja þá.

Þá er stefnumótun stjórnvalda í sumum löndum gagnrýnd. Í Danmörku hafi stjórnvöld þannig lagt nýjan skatt á rafbíla á sama tíma og þau lækkuðu skatta á aðra nýja bíla.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×