Erlent

Stuðningsmenn Brexit sektaðir fyrir brot á kosningalögum

Kjartan Kjartansson skrifar
Leave.EU sem barðist fyrir útgöngu Bretar úr ESB gerði ekki grein fyrir rúmum 70.000 pundum sem hópurinn eyddi í þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Leave.EU sem barðist fyrir útgöngu Bretar úr ESB gerði ekki grein fyrir rúmum 70.000 pundum sem hópurinn eyddi í þjóðaratkvæðagreiðsluna. Vísir/AFP
Kjörnstjórn Bretlands hefur gert einum af stærstu baráttuhópunum fyrir útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu að greiða 70.000 pund í sekt fyrir að hafa eytt meira fé en leyfilegt var í kosningabaráttu sína og að hafa ekki gefið það upp.

Sektin er jafnhá þeirri hæstu sem kjörstjórnin hefur nokkru sinni lagt á. Kjörstjórnin segir að mögulega þurfi lögregla að rannsaka hvort glæpur hafi verið framinn þegar framboðið gaf ekki upp upplýsingar um eyðslu sína fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram í júní árið 2016.

Leave.EU-hópurinn segist ætla að kæra úrskurðinn og fullyrðir að brotin hafi verið minniháttar. Ekkert „stórt samsæri“ hafi átt sér stað í tengslum við Brexit-atkvæðagreiðsluna, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Arron Banks, stofnandi hópsins, brást við sektinni með uppnefnum um kjörstjórnina. Sagði hann kjörstjórnina sköpunarverk „Blairista-mýrarinnar“ sem væri full af „kyrrkvörturum“ [e. Remoaners] sem væru hallir undir ríkjandi valdakerfi.

Virtist hann þar vísa í slagorð Donalds Trump Bandaríkjaforseta um að uppræta spillingu með því að „ræsa fram mýrina“ og hugmyndafræði Tonys Blair fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. „Remoaner“ er algengt uppnefni stuðningsmanna Brexit um þá sem vilja að Bretar verði áfram aðilar að ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×