Enski boltinn

Watford enn brjálað út í Everton vegna Silva

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marco Silva er eftirsóttur innan herbúða Everton
Marco Silva er eftirsóttur innan herbúða Everton vísir/getty
Watford hefur gert formlega kvörtun til forráðamanna ensku úrvalsdeildarinnar yfir Everton og tilraunum bláklæddra til þess að stela knattspyrnustjóranum Marco Silva.

Félögin tvö hafa staðið í deilum síðan undir lok síðasta árs og settust saman í síðasta mánuði til þess að reyna að leysa málið sín á milli, enda vill úrvalsdeildin helst að félög leysi allar þær deilur sem upp koma sín á milli. Það tókst hins vegar ekki og Sky Sports greinir frá því að Watford hafi lagt fram formlega kvörtun.

Forráðamenn Watford eru brjálaðir yfir atgöngu Everton eftir Silva. Stjórinn vildi sjálfur fara til Everton en Watford neitaði honum að tala við forráðamenn Everton.

Silva náði mjög góðum úrslitum með Watford í byrjun tímabils, en eftir að Everton rak Ronald Koeman og fór að sækjast eftir Portúgalanum þá hrundi gengi Watford og var Silva að lokum rekinn í janúar eftir að hafa aðeins unnið einn af 11 síðustu leikjum.

„Félagið er sannfært um það að ráðning Silva hafi verið sú rétta í stöðunni og hefði ekki verið fyrir óvelkomna atlögu annars úrvalsdeildarfélags eftir honum þá hefði félagið haldið áfram að blómstra undir hans leiðsögn,“ sagði í tilkynningu frá Watford.

Sam Allardyce var rekinn frá Everton í morgun, en hann var ráðinn í nóvember þegar ljóst var að Silva væri ekki á leiðinni. Silva er enn talinn efstur á óskalista Everton sem arftaki Allardyce.


Tengdar fréttir

Everton losar sig við Allardyce í vikunni

Everton mun leysa Sam Allardyce frá störfum í vikunni og fyrrum stjóri Watford, Marco Silva, mun taka við starfi hans. Þessu heldur breska blaðið Guardian fram.

Marco Silva rekinn frá Watford

Watford hefur rekið knattspyrnustjórann Marco Silva en BBC og Sky Sports voru að greina frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×