Erlent

Fullyrðir að Trump hafi verið sagt að hann verði ekki ákærður

Kjartan Kjartansson skrifar
Giuliani segir einnig að lögmenn Trump hvetji hann ekki til að veita Mueller viðtal í tengslum við Rússarannsóknina.
Giuliani segir einnig að lögmenn Trump hvetji hann ekki til að veita Mueller viðtal í tengslum við Rússarannsóknina. Vísir/AFP

Lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta heldur því fram að Robert Mueller, sérstakur rannsakandi dómsmálaráðuneytisins, hafi sagt lögmönnum forsetans að hann telji sig ekki geta ákært hann samkvæmt leiðbeiningum ráðuneytisins.

Rudy Guiliani, lögmaður Trump, segir við Washington Post að Mueller hafi sjálfur sagt þetta á fundi fyrir nokkrum vikum. Sérstaki rannsakandinn væri sammála áliti sem dómsmálaráðuneytið samdi þegar sérstakir saksóknarar rannsökuðu Richard Nixon og Bill Clinton. Samkvæmt því er ekki hægt að ákæra sitjandi forseta fyrir glæpi.

Þess í stað telur ráðuneytið að rétta leiðin til að láta forseta axla ábyrgð samkvæmt stjórnarskránni sé að láta þingið sjá um að ákveða hvort það vilji ákæra hann. Washington Post segir að samkvæmt lögum um sérstaka saksóknara þurfi Mueller að skila niðurstöðum sínum í trúnaðarskýrslu til aðstoðardómsmálaráðherrans. Það sé ráðherrans að ákveða hvort niðurstöðurnar verði birtar opinberlega.

Rannsókn Mueller á afskiptum Rússa af forsetakosningunum árið 2016 og mögulegu samráði framboðs Trump við þá hefur nú staðið yfir í eitt ár. Eins og varðandi nær allar fyrirspurnir fjölmiðla neitaði talsmaður Mueller að tjá sig um frétt blaðsins um líkurnar á því að Trump verði ákærður.


Tengdar fréttir

Erfiðleikar hjá Rudy Giuliani

Trump svaraði fyrir ummæli Rudys Giuliani, nýs lögfræðings síns, um Stormy Daniels-málið. Sagði Giuliani frábæran en minnti á að hann væri nýr í starfi.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.