Erlent

Hernaðarútgjöld heimsins ekki verið hærri frá kalda stríði

Gunnar Hrafn Jónsson skrifar
Myndin sýnir hlutfall hernaðarútgjalda á heimsvísu
Myndin sýnir hlutfall hernaðarútgjalda á heimsvísu Vísir/SIPRI

Framlög til varnarmála aukast enn á heimsvísu á milli ára og hafa ekki verið eins há frá lokum kalda stríðsins. Þetta kemur fram í nýrri samantekt SIPRI, Stochholm International Peace Research Institute. Alls vörðu þjóðir heims meira en 176 þúsund milljörðum króna til varnarmála í fyrra.

Skerfur Bandaríkjamanna af þeirri upphæð er meira en þriðjungur eða rúmlega 62 þúsund milljarðar íslenskra króna. Það jafngildir öllum varnarframlögum næstu sjö ríkja á listanum yfir helstu hernaðarveldi heims. Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins bera alls ábyrgð á 52% allra hernaðarútgjalda.

Helsta þróun síðustu ára hefur verið aukinn hlutur Kínverja í hernaðarútgjöldum heimsins, hlutfallsleg útgjöld þeirra til varnarmála hafa tvöfaldast á einum áratug og eru nú 13% af heildinni.

Þá vekur athygli að Sádí Arabía er nú í þriðja sæti listans yfir þau ríki sem verja hlutfallslega mestu til varnarmála. Sádar skjótast framfyrir Rússa á listanum en hernaðarútgjöld Rússa drógust saman um heilan fimmtung í fyrra. Það er fyrsti samdráttur hernaðarútgjalda í Rússlandi í tvo áratugi.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.