Erlent

Sjóræningjar myrtu 12 skipverja

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Forsetinn David Granger segir morðin mikið áfall.
Forsetinn David Granger segir morðin mikið áfall. Vísir/getty
David Granger, forseti Suður-Ameríkuríkisins Gvæjana, segir að um 12 þarlendir sjómenn hafi verið myrtir af sjóræningjum í liðinni viku.

„Þetta var hræðilegt blóðbað, hræðilegur harmleikur,“ er haft eftir Granger á vef breska ríkisútvarpsins.

Að sögn gvæjanskra fjölmiðla er talið að sjóræningjarnir hafi ráðist að 20 skipverjum, sem sigldu um á fjórum bátum, síðastliðinn föstudag.

Búið er að finna lík þriggja skipverja og áætlað er að fjórir hafi sloppið undan sjóræningjunum. Hvar þeir eru niðurkomnir er þó ekki vitað á þessari stundu.

Vitni lýsa því hvernig sjóræningjarnir drekktu skipverjum með því að binda útlimi þeirra fasta og hengja á þá þung lóð. Síðan var þeim varpað útbyrðis. Áður höfðu sjóræningjarnir rænt og barið skipverjana.

Forsetinn Granger segir að ránið kasti rýrð á góðan árangur Gvæjanamanna í baráttunni við sjórán á síðustu misserum. Hann sendi jafnframt fjölskyldum hinna látnu samúðarkveðjur.

Málið er enn til rannsóknar og njóta gvæjanskir björgunarmenn stuðnings nágranna sinna í Súrínam við verkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×