Erlent

Tugir látnir eftir sprengjuárásir í Afganistan

Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir skrifar
Öryggissveitir flýja eftir aðra sjálfsmorðssprengjuárás í Kabúl í morgun.
Öryggissveitir flýja eftir aðra sjálfsmorðssprengjuárás í Kabúl í morgun. AP
Hið minnsta 30 manns liggja í valnum eftir röð mannskæðra árása í Afganistan í dag. 

25 eru látnir og 45 eru slasaðir eftir tvær sjálfsmorðssprengjuárásir sem gerðar voru í miðborg Kabúl í Afganistan í morgun. Íslamska ríkið (ISIS) hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum. Talsmaður lögreglunnar í Kabúl, Hashmat Stanekzai, staðfestir þetta við AP fréttastofuna.

Fyrri árásin var sjálfsmorðsárás og seinni árásarmaðurinn var dulbúinn sem blaðamaður. Hann kom sér fyrir í hópi þeirra blaðamanna sem komu á vettvang fyrri sprengingarinnar og sprengdi sig í loft upp. Níu blaðamenn féllu í árásinni, þar á meðal aðal ljósmyndari AFP fréttastofunnar í Kabúl, Shah Marai, og þrír blaðamenn Radio Free Europe.

Samtökin Blaðamenn án landamæra (RSF) segja þetta banvænustu árás beinda gegn blaðamönnum frá falli Talíbana árið 2001 og hvatti stjórnvöld til að gera meira til að vernda blaðamenn.

Önnur sjálfsmorðssprengjuárás varð nokkrum klukkutímum síðar í Kandahar héraði í Afganistan. Árásin beindist gegn bílalest rúmenskra hermanna á vegum NATO og varð ellefu börnum að bana, 16 til viðbótar særðust. AP fréttastofan hefur þetta eftir Matiullah Helal, talsmanni lögreglunnar í héraðinu. Bifreið var ekið inn í bílalestina um leið og hún fór fram hjá hópi barna en þau voru í skóla skammt frá bílaestinni. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð á þeirri árás. 

Ahman Shah, fréttamaður fyrir BBC í Afganistan, lést einnig í óskildri árás í dag eftir að byssumaður skaut hann til bana í Khost héraði. Najib Sharifi, framkvæmdarstjóri öryggisnefndar afgangskra blaðamanna (AJSC) segir Shah hafa verið á leið heim úr vinnunni þegar ráðist var á hann, ekki hafi tekist að bera kennsl á byssumanninn. 

Mannskæðar árásir hafa verið tíðar í Afganistan undanfarna mánuði. 

Fréttin var uppfærð kl. 14:15




Fleiri fréttir

Sjá meira


×