Í færslunni er vísað til annars fjöldamorðingja, Elliot Rodger, sem skaut sex til bana og særði 13 í Isla Vista í Kaliforníu árið 2014. Í færslunni var einnig talaði með herskáum hætti um byltingu hinnar svokölluðu „Incel“-hreyfingar.
Facebook-reikningi Minassian hefur nú verið lokað og lögreglan í Toronto reynir enn að átta sig á því hvað vakti fyrir árásarmanninum. Engu að síður virðist færslan á vegg Minassian tengja hann við fyrrnefnda hreyfingu - hreyfingu sem hvílir á kynferðislegri gremju tugþúsunda karlmanna og leitt hefur til djúpstæðs kvenhaturs á netinu.

Sjá einnig: Árásarmaðurinn í Toronto ákærður fyrir morð
Stuðningsmenn hreyfingarinnar reiða sig á internetið þar sem þeir leita að stuðningi frá nafnlausum þjáningarbræðrum sínum. Á netinu hafa þeir þróað með sér sjálfsmynd sem byggir á því að heimurinn halli með ósanngjörnum hætti á „vandræðalega og ómyndarlega gagnkynhneigða karlmenn.“ Margir þeirra, að sögn Guardian, hafa því tileinkað sér þá skoðun að heimurinn „skuldi þeim“ kynlíf - hugmynd sem leitt hefur marga Incel-menn í ógöngur.
Það er meðal þess sem kom fram í yfirlýsingu fyrrnefnds Elliot Rodger, skömmu áður en hann réðst til atlögu í Isla Vista. Í yfirlýsingunni tók hann skýrt fram að árásin hvíldi á öllum þeim höfnunum sem hann hafði orðið fyrir frá hinu kyninu. Það væri með öllu ótækt að hann væri 22 ára gamall og ennþá hreinn sveinn.

Færsla Minassian, þess sem grunaður er um verknaðinn í Toronto á mánudag, ber þess merki að hann hafi verið hluti af Incel-hreyfingunni og því ekki útilokað að kynferðisleg gremja búi að baki árásinni - rétt eins og í tifelli hins dýrkaða Rodger árið 2014.
Engu að síður hafa stjórnendur aðal Incel-spjallborðsins þvertekið fyrir það að Minassian hafi verið þátttakandi í hreyfingunni. Hann hafi til að mynda aldrei birt eina einustu færslu á vefsvæðinu. Þrátt fyrir nýtur það Minassian stuðnings á síðunni. Einn notenda hennar hrósar honum til að mynda fyrir ódæðið - flestir strákanna á síðunni séu kannski stórir á bakvið lyklaborðið en láti ekki verkin tala, eins og Minassian.
Hann hefur nú verið ákærður fyrir 10 morð og 13 morðtilraunir.
Hér að neðan má heyra umræður í útvarpsþættinum Harmageddon um kynferðislega gremju árásarmannsins.