Erlent

Viljaverk og mögulega hryðjuverk

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Alek Minassian er 25 ára gamall.
Alek Minassian er 25 ára gamall. Skjáskot
Kanadíska lögreglan yfirheyrir nú ökumann sendiferðabifreiðarinnar sem ók í gegnum mannþröng á götum Toronto í gær. Tíu eru látnir og fimmtán liggja sárir á sjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir bílnum.

Talið er að hinn 25 ára Alek Minassian, sem grunaður eru um verknaðinn, hafi ekið á fólkið af ásettu ráði. Vitni lýsa því hvernig hann ók á ógnarhraða eftir gangstéttunum og virðist beygja sérstaklega í átt að gangandi vegfarendum, svo hann myndi örugglega hæfa sem flesta. Hvað vakti fyrir Minassian liggur þó ekki fyrir á þessari stundu.

Þrátt fyrir að ódæðið hafi verið „hræðilegt“ að sögn þarlendra öryggissérfræðinga er ekki talið það sé til marks um yfirstandandi ógn við þjóðaröryggi Kanada. Rannsókn málsins sé þó ekki lokið og því sé ekkert fullkomlega útilokað á þessari stundu.

Sjá einnig: Tíu látnir og fimmtán slasaðir í Toronto

Minassian, sem sagður er vera frá bænum Richmond í nágrenni Toronto, hefur ekki áður komist í kast við lögin. Lögreglumenn hafa ekkert viljað gefa upp um hvort þá gruni að Minassian hafi haft einhver tengsl við hryðjuverkahópa erlendis. Sem fyrr segir sé rannsóknin skammt á veg komin og því kann ýmislegt að koma í ljós á næstu dögum og vikum.

Hér má sjá brot úr umfjöllun kanadíska ríkissjónvarpsins um málið, þar sem meðal annars er rætt um Alek Minassian.

Lögreglan kallar nú eftir vitnum að ódæðinu og segja talsmenn hennar að nú verði kannað hvort Minassian hafi átt sér vitorðsmenn.

Kanadísku lögreglumönnunum hefur verið hrósað vestanhafs fyrir það hvernig þeir tóku á málinu. Þeir hafi til að mynda ákveðið að skjóta ekki á Minassian, þrátt fyrir að hann hafi sagst vera vopnaður. Þá fór Minassian jafnframt ítrekað fram á það við lögreglumennina að þeir myndu skjóta hann til bana.

Kanadíski forsætisráðherrann Justin Trudeau segist harmi þrunginn eftir árásina, sem hann lýsir sem sorlegri og merkingarlausri. Hann vottar jafnframt eftirlifendum og íbúum Toronto-borgar samúð sína.



Hér að neðan má sjá myndband Guardian af atburðarás gærkvöldsins.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×