Enski boltinn

Aron Einar í aðgerð á morgun: „Bjartsýnn fyrir HM“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Aron Einar vonast til að ná HM.
Aron Einar vonast til að ná HM. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði Íslands og leikmaður Cardiff, mun undirgangast aðgerð á morgun vegna meiðsla sem hann hlaut í leik Cardiff og Hull í gærkvöldi en Aron Einar fór af velli eftir níu mínútna leik í gær.

Aron missteig sig illa og féll til jarðar en er hann steig aftur upp þá fann hann smell í hnénu.

„Ég fann stingandi sársauka og ég vissi strax að þetta var alvarlegt. Ég fór svo í myndatöku í morgun og fékk að vita hver staðan væri. Ökklinn er tognaður en svo er rifa í utanverðum liðþófa í hnénu,” sagði Aron Einar í tilkynningu sem var send fjölmiðlum síðdegis.

Það styttist í HM og margir Íslendingar voru áhyggjufullir um stöðu Arons fyrir HM en einungis 47 dagar eru í fyrsta leik Íslands. Aron er bjartsýnn á að ná HM.

„Ég fer í litla aðgerð annað kvöld og svo tekur bara við strangt endurhæfingarferli. Ég er í góðum höndum hérna í Wales,” sagði Aron og bætti við:

„Það eru topplæknar og sjúkraþjálfarar sem meðhöndla mig og mér er sagt að ef allt gengur að óskum þá eigi ég góðan möguleika á að vera kominn í stand áður fyrsti leikurinn okkar verður flautaður á í Moskvu. Tíminn verður að leiða þetta í ljós en ég kýs að vera jákvæður og bjartsýnn.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×