Innlent

Landvernd vill Þingvallaveg í umhverfismat og krefst stöðvunar

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þingvallavegur er fjölfarinn, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna.
Þingvallavegur er fjölfarinn, ekki síst vegna mikillar fjölgunar ferðamanna. Vísir/Vilhelm

Landvernd hefur kært ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbætur á Þingvallavegi milli þjónustumiðstöðvar og syðri vegamóta við Vallarveg í Bláskógabyggð skuli ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.

Í kæru Landverndar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að endurbætur á Þingvallavegi verði stöðvaðar á meðan kærumálið er hjá nefndinni.

„Þessi krafa er gerð til að koma í veg fyrir yfirvofandi náttúruspjöll,“ segir í kærunni. „Fyrir liggur að framkvæmdaraðilar eru tilbúnir að hefja verkið á næstu vikum eða mánuðum.“

Í rökstuðningi sínum vísar Landvernd til ýmissa verndarákvæða sem eiga við um svæðið. Svæðið njóti verndar samkvæmt lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum og samkvæmt skráningu á Heimsminjaskrá UNESCO. Einnig sé vistkerfi á svæðinu afar viðkvæmt.

Jafnframt sé ljóst að áhrif á birkiskóg og eldhraun á svæðinu verði neikvæð, en þessi svæði njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Þá bendir Landvernd á að í ákvörðun Skipulagsstofnunar komi fram að áhrif á fernar fornleifar verði neikvæð og óafturkræf. Þó séu áhrifin ekki talin breyta einkennum jarðminja í þjóðgarðinum á Þingvöllum.

„Skipulagsstofnun segir þrátt fyrir ofangreint að endurbætur á Þingvallavegi séu ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfis­áhrif. Landvernd bendir aftur á móti á framangreindar niðurstöður stofnunarinnar sem sýna sannarlega neikvæð umhverfisáhrif. Hvenær verða umhverfisáhrif framkvæmda umtalsverð?“ segir í kærunni.

Landvernd telur málið vanreifað og að full ástæða sé til að opna fyrir samráð meðal almennings um framkvæmdina.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.