Enski boltinn

Tottenham þarf ekki að hafa áhyggjur af Aguero á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Aguero eftir tæklingu Ashley Young.
Sergio Aguero eftir tæklingu Ashley Young. Vísir/Getty
Manchester City hefur tapað þremur mikilvægum leikjum í röð og misst af því bæði að tryggja sér enska meistaratitilinn sem og að komast lengra en í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Í dag tilkynnti síðan Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Manchester City, að hann verði án argentínska framherjans Sergio Aguero í stórleiknum á móti Tottenham á Wembley á morgun.

Sergio Aguero meiddist eftir grófa tæklingu frá Ashley Young í leik Manchester-liðanna á laugardaginn en fékk þó ekki vítaspyrnuna sem hann átti skilið.

Aguero æfði ekki fyrir Liverpool leikinn í vikunni en kom inná sem varamaður í tapinu á þriðjudaginn.







„Hann gat ekki æft eftir tæklinguna frá Ashley Young á laugardaginn og hann gat síðan ekki hlaupið eftir leikinn á þriðjudaginn,“ sagði Guardiola.

„Vonandi verður hann orðinn góður fyrir lokaleikina og svo fyrir HM í sumar,“ sagði Guardiola.

Sergio Aguero er markahæsti leikmaður Manchester City á tímabilinu með 30 mörk í 39 leikjum í öllum keppnum þar af 21 mark í 25 leikjum ensku úrvalsdeildinni.

Guardiola staðfesti líka að varnarmaðurinn John Stones  sé enn meiddur og þá tekur miðjumaðurinn Fernandinho út leikbann.

Það vantar því í lið Manchester City allstaðar á vellinum í leiknum á móti Tottenham á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×