Innlent

Ruiz mun bera vitni í máli Guðmundar Spartakusar gegn Atla Má

Jakob Bjarnar skrifar
Í stefnunni á hendur Atla Má er því haldið fram að hann hafi án sannana sett fram tilhæfulaus ummæli á hendur Guðmundi Spartakusi þar sem hann er án sannana sakaður um hroðalegustu glæpi.
Í stefnunni á hendur Atla Má er því haldið fram að hann hafi án sannana sett fram tilhæfulaus ummæli á hendur Guðmundi Spartakusi þar sem hann er án sannana sakaður um hroðalegustu glæpi. Vísir

Hin umstefndu ummæli eru; „ósönn, óviðurkvæmileg, tilhæfulaus og smekklaus og til þess fallin að sverta stefnanda,“ segir í stefnu Guðmundar Spartakusar Ómarssonar á hendur Atla Má Gylfasyni blaðamanni með meiru.



Auk Atla Más er Reyni Traustasyni stefnt sem forsvarsmanni útgáfufélags Stundarinnar. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Guðmundar Spartakusar fer fram á 10 milljónir í miskabætur vegna tilhæfulauss fréttaflutnings á hendur Guðmundi Spartakusi, með vöxtum.



Auk þess er farið fram á að hinir stefndu standi skil á málskostnaði. Þá er farið fram á ómerkingu á „ærumeiðandi ummælum og greiðslu miskabóta vegna ítrekaðra ærumeiðinga og brota á friðhelgi einkalífs stefnanda, í fréttum sem birtar voru í fjölmiðlum meðstefnda Stundarinnar, í útvarpsþættinum Harmageddon og í viðtali í hljóði og mynd á Facebook og www.sudurnes.net, dagana 1. 2. og 30. desember 2016,“ eins og segir í stefnu. Alls er um 30 ummæli að ræða.

Candido Figueredo Ruiz mun bera vitni

Málið, sem hefur verið fyrirferðarmikið í fjölmiðlum og snýr að meintum fíkniefnaumsvifum Guðmundar Spartakusar og hvarfi Friðriks Kristjánssonar, verður tekið fyrir 3. maí næstkomandi. Paragvæski blaðamaðurinn Candido Figueredo Ruiz, sem fjallað hefur um eiturlyfjaviðskipti og spillingu í Paragvæ, mun meðal annarra bera vitni í málinu.



Ekki liggur fyrir hvort Ruiz er á leið til landsins, en hann er verðlaunaður blaðamaður sem hefur mátt búa við það, vegna umfjöllunar sinnar, að vera með lífverði við hvert fótmál. Eins og meðal annars kemur fram kemur í þessari umfjöllun Vice.

Úr umfjöllun Vice um Ruiz en umfjöllun hans um spillingu og eiturlyfjaviðskipti í Paragvæ hefur leitt til þess að honum hafa verið sýnd banatilræði.

Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður RÚV, byggði þá umfjöllun sem Ríkisútvarpið samdi sig frá málaferlum með skaðabótagreiðslum til Guðmundar Spartakusar, meðal annars á fréttum og viðtölum við Ruiz.

Ekki vitað hvort Ruiz sé á leið til landsins

Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður, verjandi Atla Más í málinu, segir í samtali við Vísi að af sinni hálfu hafi ekki staðið annað til en að taka af honum símaskýrslu í málinu. En, lögmaður Guðmundar Spartakusar hafi krafist þess að Ruiz komi til landsins. Gunnar Ingi segist þá líta svo á að eðlilegt sé að stefnandi í málinu beri þann kostnað sem því fylgir að fljúga honum til landsins en ekki hafi komið nein viðbrögð fram við því. Ekki enn.



Vísir hefur reynt að setja sig í samband við Candido Figueredo Ruiz með það fyrir augum að inna hann eftir því hvort hann sé að búa sig til Íslandsfarar, en án árangurs. Meðal annars væri forvitnilegt að vita hvort hann verður í fylgd lífvarða komi til þess að honum verði flogið til landsins.

Ásakanir um svívirðileg hegningarlagabrot

Stefnan á hendur Atla Má er ítarleg en í lið sem heitir Málsástæður og lagarök, ómerkingarkrafa, segir meðal annars að skipta megi hinum umstefndu ummælum í þrennt eftir efni þeirra ásakana sem þau innihalda:

Jóhann Hlíðar byggði umfjöllun sína á RÚV að miklu leyti á skrifum Ruiz auk þess sem hann var í beinu sambandi við paragvæska blaðamanninn. Ríkisútvarpið samdi sig frá málaferlum.

„Í fyrsta lagi er stefnanda gefið að sök að hafa gerst sekur um svívirðilegt manndráp. Í öðru lagi er stefnandi ásakaður um það að villa á sér heimildir og nota til þess falsað vegbréfi sem er skjalafals samkvæmt íslenskum lögum. Í þriðja lagi þá er stefnanda gefið að sök að vera stórtækur eiturlyfjasmyglari.“



Guðmundur Spartakus byggir stefnu sína á því að í téðum ummælum felist ásökun um að hann hafi gerst sekur um alvarleg hegningarlagabrot „sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Öll ummælin fela í sér ásökun um refsiverða háttsemi og eru til þess fallin að meiða æru stefnanda. Að gefnu tilefni er rétt að taka það fram að stefnandi er ekki með sakarferil eins og sjá má á framlögðu sakavottorði og er ekki til rannsóknar hjá lögreglu.“

Hroðalegt mál sem undir er

Meðal þeirra atriða sem eru tíunduð eru þau að Guðmundi Spartakusi sé „gefið að sök að hafa sýnt afskorið höfuð Friðriks á Skype og líkur þannig leiddar að því að stefnandi hafi fyrirkomið Friðriki. Með ummælunum er stefnanda gefin að sök refsiverð og siðferðislega ámælisverð háttsemi sem varðar við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en svívirðilegri glæp en manndráp er erfitt að hugsa sér.“

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson flytur málið fyrir hönd Guðmundar Spartakusar. Stefna hans er ítarleg en alls er farið fram á ómerkingu 30 atriða í fréttaflutningi og máli Atla Más.visir/gva

Í þessu er vísað til Stundarinnar, 1. desember 2016 (bls. 1, 20-25). Í stefnunni er talið óyggjandi að það sé Guðmundur Spartakus sem sé bendlaður við hroðalegt morð á Friðrik Kristjánssyni og nefnt að Atli Már Gylfason hafi fylgt umfjöllun sinni eftir í viðtölum þar sem hann auglýsti umfjöllun sína og Stundina. Rakin eru dæmi um það í stefnunni.

Ekki verjandi sem vill kalla Ruiz til landsins

Vísir ræddi sérstaklega við lögmann Atla Más, um þessa stefnu. En, Atli Már hefur greint frá því sjálfur, á Facebooksíðu sinni, að Blaðamannafélag Íslands standi straum af málskostnaði hans. Gunnar Ingi segist hafa boðað að Candido Figueredo Ruiz, hinn paragvæski blaðamaður, myndi bera vitni. Og að hann myndi reyna að taka af honum skýrslu í gegnum síma, en heimild er fyrir slíku sé vitni statt fjarri þingstað.



„Sem á við um hann. Einhvern tölvupóst sá ég um að stefnandi vildi helst fá hann fyrir dóminn. Þá er sjálfsagt að hann kaupi fyrir hann flugfar. Ekki stendur til annað en taka af honum símaskýrslu.“



Gunnar Ingi segist ekki sjá hina knýjandi nauðsyn þess að Ruiz mæti í réttarsal. „Ekki frekar en stefnandi. Ég veit ekki hvar hann er niðurkominn í heiminum en hann hefur höfðað mál á færibandi en það hefur enginn séð hann í mörg ár,“ segir Gunnar Ingi um Guðmund Spartakus.



Ekki nema þá lögmaður hans?



„Já, við verðum að gera ráð fyrir því.“

Umfjöllunin byggir á erlendum fréttum

En, hvers vegna metur þú það svo að nauðsynlegt sé að Ruiz beri vitni?

Sigmundur Ernir var sýknaður í máli Guðmundar Spartakusar á hendur honum. Því máli var áfrýjað og verður tekið fyrir í Hæstarétti Íslands 30. þessa mánaðar. Dóms er að vænta þann sama dag og málflutningur í máli Atla Más fer fram.visir/anton brink

„Án þess að ég vilji fara djúpt ofan í það, fyrir flutning málsins, þá er það okkar mat að það geti verið gagnlegt að hann staðfesti, að hann sé heimildarmaður og/eða hafi skrifað um þessi mál Guðmundar Spartakusar og hvernig hann tengist inní þennan fíkniefnaheim sem hann er sagður gera, þá í þessari erlendu umfjöllun. Það sem hefur verið skrifað um hann hérna heima á Íslandi er haft eftir erlendum fjölmiðlum.“



Gunnar Ingi segir sem sagt að tilgangurinn með því að taka skýrslu af Ruiz sé sá að fá það staðfest fyrir rétti að skrifað hafi verið um þessi mál þarna úti.



„Og um leið þá, sýna fram á að þetta er ekki uppspuni í íslenskum fjölmiðlum heldur fá erlenda blaðamanninn til að staðfesta að um þetta hafi verið fjallað þarna úti. Og þá á hvaða heimildum hafi verið byggt þar. En, ég er ekki að kalla eftir honum hingað til lands.“

Mál á hendur Sigmundi Erni á dagskrá 30. apríl

Gunnar Ingi bendir á mál sem hann segir hliðstætt, sem er mál Guðmundar Spartakusar á hendur Sigmundi Erni Rúnarssyni fréttastjóra Hringbrautar. En, Sigmundur Ernir var sýknaður í því máli í héraði. Guðmundur Spartakus áfrýjaði því og verður það mál flutt í Hæstarétti 30. apríl í þessum mánuði.

Atli Már Gylfason. Tekist er á um hvort hann hafi gengið of langt í umfjöllun sinni um Guðmund Spartakus og hreinlega farið fram með staðlausa stafi.visir/stefán

„Það er næsta mál á dagskrá. Þar var sýknað á þeim forsendum að íslenskum fjölmiðlum ætti að vera óhætt að greina frá því sem segir í erlendum fjölmiðlum. Eins og Mannréttindadómsstóll Evrópu hefur ítrekað sagt, verður að fara varlega í að takmarka tjáningarfrelsi blaðamanna í endursögn á fréttum sem þegar hafa verið sagðar. Það var það eina sem gert var á Hringbraut og Hæstiréttur mun hlusta á það á mánudeginum 30. apríl.“



Gunnar Ingi segir að vænta megi dóms í því máli sama dag og mál Guðmundar Spartakusar á hendur Atla Má verður flutt fyrir Héraðsdómi Reykjaness, það er fimmtudaginn 3. maí.



„Einu ummælin sem varða Guðmund Spartakus eru nákvæmlega sömu ummælin og héraðsdómi Reykjavíkur og Sigmundur var sýknaður af.“



Þetta þýðir að Gunnar Ingi mun leggja málið upp þannig að umfjöllun Atla Más snúi að meintum ónafngreindum íslenskum morðingja en í stefnunni er talið óyggjandi að ummælin snúi að Guðmundi Spartakusi og engum öðrum.

Að standa vörð um tjáningarfrelsi blaðamanna

Gunnar Ingi segist meta það sem svo að Mannréttindadómsstóll Evrópu hafi ítrekað staðið vörð um þann rétt blaðamanna, að taka á móti upplýsingum og miðla þeim. Og sé fjallað um íslenska ríkisborgara í erlendum fjölmiðlum, og verið að segja þar að þeir tengist mannshvörfum og fíkniefnainnflutningi, þá sé ekki hægt að banna íslenskum fjölmiðlum að endursegja það.

Gunnar Ingi er verjandi Atla Más sem og Sigmundar Ernis. Hann segir að fróðlegt hefði verið að fá Guðmund Spartakus í réttarsalinn, en það er ekki í boði.

„Héraðsdómur stóð vaktina og sýknaði af kröfunni, nú er komið að Hæstarétti að leggja mat á þetta.“



En, það eru fleiri ummæli sem eru undir í máli Atla Más?



„Það eru einhver sjö eða átta ummæli eru alveg eins, sem varða Guðmund Spartakus. Og, svo eru önnur ummæli sem varða Guðmund Spartakus ekki neitt,“ segir Gunnar Ingi. En, Guðmundur Spartakus krefjist þess samt að eigi við um sig. Gunnar Ingi segir að hann hafi, fyrir hönd umbjóðenda sinna, farið fram á frávísun en Héraðsdómur Reykjaness vilji fá efnisumfjöllun um máli.

Vill fá Guðmund Spartakus í réttarsalinn

„Ég skil ekki af hverju stefnandi í þessu máli vill ekki koma fyrir dóm,“ segir Gunnar Ingi, en hann segir að Guðmundur Spartakus neiti að bera vitni sjálfur.



„Það er búið að skora á hann að koma fyrir dóm og gefa skýrslu, en hann vill ekki verða við því. Og hann vill ekki koma og segja frá því hvernig þetta hefur hitt hann illa fyrir, þessi umfjöllun, að hvaða leyti. Hann hefur ekki gefið neinar skýringar á því,“ segir Gunnar Ingi.



Hann segir að upplýsandi gæti reynst að spyrja hann út í þessar ferðir hans þarna erlendis. „Því var lýst yfir af hans lögmanni að hann ræki kalkverksmiðju í Paragvæ; af hverju hann telji að fjölmiðar í Paragvæ séu að bendla hann við ólögmæta starfsemi? Af hverju hann hafi dregist inn í slíka umræðu ef þetta er uppspuni? En, við fáum ekki svör við því,“ segir Gunnar Ingi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×