Innlent

Lögregla auglýsir tugi haldlagðra muna á Pinterest

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nokkrir af þeim munum sem má finna á Pinterest-síðu lögreglunnar.
Nokkrir af þeim munum sem má finna á Pinterest-síðu lögreglunnar. Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Lögregla biðlar til þeirra, sem kannast við einhverja af fjölmörgum munum sem lagt hefur verið hald á í kjölfar innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu, að vitja þeirra eftir páskahelgi. Myndir af mununum má nálgast á Pinterest-síðu lögreglunnar.

Fyrir skemmstu lagði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hald á töluvert magn muna, sem talið er að tengist innbrotum sem framin hafa verið nýverið. Lögreglunni hefur tekist að koma stórum hluta umræddra muna til eigenda, en enn er nokkuð magn muna sem ekki er vitað hvaðan koma, að því er segir í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögregla óskar því eftir að fólk fari inn á Pinterest-síðu sem hún heldur úti en þar má finna myndir af áðurnefndum munum.

Það kennir ýmissa grasa á Pinterest-síðu lögreglunnar. Skjáskot/LÖgreglan á höfuðborgarsvæðinu

Ef einhver kannast við munina og telur sig eiga þá getur sá haft samband við lögreglu eftir páskahelgina í síma 444-1140 eða sent tölvupóst á netfangið lgs@lrh.is.

Pinterest síðuna má finna hér, en borðin með umræddum munum eru tvö og heita bæði „haldlagðir munir,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Töluvert hefur verið fjallað um innbrotahrinu á höfuðborgarsvæðinu síðustu mánuði. Fimm sitja enn þá í gæsluvarðhaldi vegna málsins en á þriggja mánaða tímabili frá desember til febrúar voru tæplega 130 innbrot í heimahús tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar af um 50 í febrúar. Þá er verðmæti stolinna muna talið hlaupa á milljónum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.