Innlent

Innbrot á höfuðborgarsvæðinu hafa ekki verið fleiri í rúm fimm ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikil fjölgun innbrota hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði. Lögreglan telur að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða.
Mikil fjölgun innbrota hefur átt sér stað á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði. Lögreglan telur að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Vísir/Pjetur

Tilkynnt var um 52 innbrot í heimili eða einkalóðir til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í febrúar. Ekki hafa borist jafn margar tilkynningar um innbrot frá því í desember árið 2012. 

Tilkynningum um innbrot fjölgaði nokkuð í febrúar miðað við síðustu tólf mánuði á undan og þar af fjölgaði innbrotum á heimili eða einkalóðir mikið, að því er segir í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um afbrotatölfræði fyrir febrúarmánuð. Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þessum brotum er sögð miða vel.

Lögreglan hefur gert húsleitir allvíða á höfuðborgarsvæðinu og lagt hald á mikið af þýfi. Unnið er að því að hafa samband við þolendur innbrota svo hægt sé að koma hlutum aftur í réttar hendur og segir lögreglan að vel hafi gengið í þeim efnum. Vinnan sé þó óneitanlega nokkuð tímafrek. Lögregla telur víst að um skipulagða brotastarfsemi sé að ræða.

Í febrúar voru 646 hegningarlagabrot tilkynnt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Skráður fjöldi tilkynninga var nokkuð undir meðalfjölda síðustu sex og síðustu tólf mánaða á undan. Auk hegningarlagabrota fækkaði skráðum þjófnaðarbrotum, meiriháttar eignaspjöllum, fíkniefnabrotum og akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Það sem af er ári hafa þó verið skráð um 77 prósent fleiri brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna en höfðu verið skráð að meðaltali fyrstu tvo mánuði áranna 2015 til 2017.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.