Innlent

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna innbrotahrinu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rannsókn lögreglu er umfangsmikil.
Rannsókn lögreglu er umfangsmikil. vísir/hanna

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði í dag karlmann í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 17. apríl, á grundvelli síbrota að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Maðurinn var handtekinn í lok febrúar í þágu rannsóknar lögreglunnar á innbrotum í umdæminu. Annar maður, sem handtekinn var af sama tilefni og gert að sæta vistun í úrræði á vegum barnaverndaryfirvalda, er laus úr haldi lögreglu.

Alls hafa sjö manns verið handteknir í tengslum við málið og eru nú fimm í gæsluvarðhaldi en síðastliðinn föstudag úrskurðaði héraðsdómur fjóra menn í fjögurra vikna gælsuvarðhald vegna málsins.

Að því er fram kom í tilkynningu lögreglu vegna innbrotahrinunnar í liðinni viku er rannsókn lögreglu viðamikil en á þriggja mánaða tímabili frá desember til febrúar voru tæplega 130 innbrot í heimahús tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, þar af um 50 í febrúar.

Verðmæti stolinna muna hleypur á milljónum og í sumum tilvikum er jafnframt um að ræða muni sem hafa mikið tilfinningalegt gildi fyrir eigendur þeirra.

Auk þess að fara í húsleitir hefur lögreglan stöðvað póstsendingar, sem voru á leið úr landi og innihéldu þýfi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.