Erlent

Að minnsta kosti 38 létust í flugslysi í Nepal

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá vettvangi slyssins í Nepal.
Frá vettvangi slyssins í Nepal. vísir/getty
Að minnsta kosti 38 manns létu lífið í flugslysi í Nepal í dag og 23 slösuðust að sögn lögregluyfirvalda í landinu. Að því er fram kemur í frétt Guardian voru 67 farþegar um borð og fjórir í áhöfn vélarinnar.

Þegar vélin, sem var á vegum flugfélagsins US-Bangla frá Bangladess, var að lenda á alþjóðaflugvellinum í Katmandú, höfuðborg Nepals, rann hún um 300 metra á flugbrautinni og kviknaði í kjölfarið í vélinni.

Slökkviliðsmenn börðust við eldinn og reyndu að bjarga farþegum úr flaki vélarinnar en ekki er vitað um afdrif alls tíu farþega.

Amanda Summers, Bandaríkjamaður sem vinnur í Nepal, sá flugvélina brotlenda þar sem hún var við vinnu ekki langt frá flugvellinum.

„Vélin flaug svo lágt að ég hélt að hún myndi fljúga á fjöllin,“ segir Summers.

Hún segir að það hafi ekki verið ljóst hvort að flugvélin hafi náð að lenda á flugbrautinni.

„Allt í einu varð sprenging og svo önnur sprenging.“

Nokkur alvarleg flugslys hafa orðið í Nepal á síðustu árum sem hefur haft slæm áhrif á ferðaþjónustuna í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×