Erlent

Tyrkir hafa skrúfað fyrir neysluvatn Afrin

Samúel Karl Ólason skrifar
Tugir þúsunda eru sagðir hafa flúið heimili sín í Afrin-héraði.
Tugir þúsunda eru sagðir hafa flúið heimili sín í Afrin-héraði. Vísir/AFP

Íbúar bæjarins Afrin ekki aðgang að neysluvatni eftir að tyrkneski herinn og bandamenn þeirra náðu tökum á vatnsbóli bæjarins. Mannréttindastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að skrúfað hafi verið fyrir vatnið fyrir viku síðan.

Talið er að um 700 þúsund almennir borgarar séu nú umkringdir af Tyrkjum bæði í borginni og í nærliggjandi þorpum en þúsundir hafa þegar flúið til yfirráðasvæðis Bashar al-Assad, forseta Sýrlands.

Syrian Observatory for Human Rights segir að minnst 230 almennir borgarar hafi þegar fallið í aðgerðum Tyrkja. Þar að auki hafi 340 bandamenn Tyrkja og 42 tyrkneskir hermenn fallið og um 370 Kúrdar.

Blaðamaður Telegraph ræddi við íbúa Afrin sem sögðust vera óttaslegnir.

„Hvar er alþjóðasamfélagið? Af hverju gráta þeir ekki fyrir alla Sýrlendinga, bara suma?“ sagði Ahmed Murad. „Þeir þora ekki að gagnrýna bandamenn sína í Tyrklandi.“

Afrin-hérað er við landamæri Tyrklands en héraðið lýtur stjórn sýrlenskra Kúrda. Sókn Tyrkja inn í héraðið hefur staðið yfir síðan í janúar en þeir njóta liðsinnis sýrlenskra uppreisnarmanna. Þá hafa Tyrkir verið sakaðir um að gera loftárásir á almenna borgara og sömuleiðis hafa uppreisnarmenn þeirra meðal annars verið sakaðir um aftökur borgara og þjófnað. Sameinuðu þjóðirnar segja fregnir úr héraðinu vera ógnvænlegar en Tyrkir neita öllum sökum.

Tyrkir hafa ítrekað hótað því að láta ekki staðar numið í Afrin og að ráðast næst á bæinn Manbij, sem Kúrdar og bandamenn þeirra frelsuðu frá Íslamska ríkinu. Eftir að Kúrdar tóku Manbij árið 2016 gerðu Tyrkir innrás í Sýrland til að koma í veg fyrir að Kúrdar gætu tengt yfirráðasvæði sín í austurhluta Sýrlands við Afrin-hérað. Af ótta við að Tyrkir réðust á Kúrda sendu Bandaríkin hermenn til Manbij. Tyrkir, bandamenn Bandaríkjanna í Atlantshafsbandalaginu, hafa hótað því að ráðast á þessa hermenn og reglulega hefur verið skotið á þá.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.